139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

NATO-þingið 2010.

611. mál
[14:20]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég geri hér grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir árið 2010 og ætla að stikla á stóru í gegnum skýrsluna sem telur um tíu síður og er að finna í gögnum Alþingis. Ég mun auðvitað ekki fara í gegnum hana alla en fer þó yfir helstu atriði úr starfsári NATO-þingsins og Íslandsdeildarinnar innan þess fyrir árið 2010.

Starfsemi NATO-þingsins árið 2010 einkenndist öðru fremur af umræðu um aðgerð NATO í Afganistan sem er ein sú umfangsmesta í sögu bandalagsins. Verkefnið í Afganistan er fyrsta aðgerð NATO utan Evrópu og sú langfjölmennasta. Alþjóðlegu öryggissveitirnar í Afganistan hafa starfað undir stjórn NATO frá því í ágúst árið 2003, en síðan þá hefur aðgerðum NATO utan Evró-Atlantshafssvæðisins fjölgað stórlega. Þingmönnum varð tíðrætt um margvísleg og erfið vandamál sem bandalagið þarf að leysa í tengslum við það stóra verkefni. Samstarf við afganska þjóðarherinn var áberandi í umræðunni auk mikilvægis þess að aðildarríki NATO sendu borgaralega sérfræðinga, eins og verkfræðinga, hjúkrunarfræðinga, kennara og fleiri, til að endurreisa samfélagið. Þá létu þingmenn í ljós áhyggjur af minnkandi stuðningi almennings við NATO í mörgum aðildarríkjum, einkum í Evrópu, við aðgerðir bandalagsins í Afganistan. En líta má svo á að verkefnið í Afganistan sé prófsteinn á getu bandalagsins til þess að takast á við nýjar ógnir og öryggisumhverfi.

Þá ber að nefna umræðu um samskipti NATO við Rússland sem var áberandi á árinu. Þau samskipti kólnuðu mjög árið 2008, ekki síst í kjölfar hernaðaraðgerða Rússa í Georgíu í ágúst það sama ár. Í kjölfarið var fundum í NATO-Rússlandsráðinu frestað um ótiltekinn tíma. Einnig var brugðist við átökunum á ársfundi NATO-þingsins 2008 með breyttu samstarfi við Rússa. Á árinu 2010 rofaði til í samskiptum NATO og Rússlands og var umræða um aukið mikilvægi þess að stuðla að auknu og skipulögðu samstarfi gegn sameiginlegri ógn, eins og alþjóðlegum hryðjuverkum, kjarnorkuvopnum, sjóránum og tölvuóöryggi, fyrirferðarmikil. Enn fremur var horft til þess að NATO og stjórn Obama Bandaríkjaforseta hafa unnið að því að nálgast Rússland og laga samskiptin eftir átökin í Georgíu. Því var talið tímabært að aflétta hluta af þeim takmörkunum sem settar voru á aðkomu rússneskra þingmanna að starfi NATO-þingsins í kjölfar átaka Rússlands og Georgíu.

Jafnframt fór fram umræða um málefni norðurslóða, líkt og rætt var um hér áðan af hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur og Ragnheiði Elínu Árnadóttur, í umræðu um skýrslu Íslandsdeildar þeirra mála, og í ljósi aukins áhuga alþjóðasamfélagsins á svæðinu. Hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir er varaformaður Íslandsdeildar NATO og höfundur skýrslu varnar- og öryggismálanefndar um öryggismál á norðurslóðum og hlutverk NATO á svæðinu. Í skýrslunni leggur hún áherslu á að NATO hafi hlutverki að gegna á norðurslóðum, enda teljist fimm aðildarríki NATO til norðurskautsríkja, og bandalagið þurfi því að auka þekkingu og skilning á málefnum inni á svæðinu. Það kom enda ágætlega fram í umræðunum hér áðan hve mikla áherslu, og aukna, við leggjum á þessi mál. Í umræðunni var lögð áhersla á mikilvægi þess að norðurslóðir verði vettvangur friðsamlegrar samvinnu, ekki síst í ljósi þeirra krefjandi verkefna sem blasa við og snerta öryggi á svæðinu. Þá sé mikilvægt að NATO styðji við þær svæðisbundnu alþjóðastofnanir og samtök sem nú þegar eru til staðar. Einnig var lögð áhersla á mikilvægi þess að NATO útfærði nánar á hvaða sviði það hefði eiginlegu hlutverki að gegna á svæðinu og hvað væri á sviði annarra alþjóðastofnana en NATO að fást við.

Af öðrum málum sem voru tekin til umfjöllunar á árinu má nefna framlag NATO-þingsins til mótunar nýrrar grundvallarstefnu bandalagsins en breytt öryggisumhverfi og stórauknar aðgerðir utan hefðbundins varnarsvæðis hafa einkum verið nefnd sem ástæður fyrir endurskoðun á grundvallarstefnu bandalagsins. Það er ljóst að NATO stendur frammi fyrir erfiðum verkefnum í breyttu landslagi alþjóðasamfélagsins sem felur jafnt í sér tækifæri sem og miklar kröfur. Enn fremur fór fram umræða um samheldni NATO, samskipti NATO við ríki utan bandalagsins, fjármálakreppu heimsins, útbreiðslu gereyðingarvopna, kjarnorkuvopn Bandaríkjamanna í Evrópu og öryggismál á hafsvæðum með áherslu á hlutverk og samræmingu NATO og Evrópusambandsins.

Um NATO-þingið almennt, til upprifjunar og glöggvunar þeim sem á hlýða, má nefna að það er þingmannasamtök sem hafa verið til frá árinu 1954 og verið vettvangur þingmanna aðildarríkjanna til að ræða öryggis- og varnarmál. Fram til ársins 1999 bar þingið heitið Norður-Atlantshafsþingið, en heitir síðan NATO-þingið. Á síðustu árum hefur aðildar- og aukaaðildarríkjum NATO fjölgað mjög ört og hefur starfssvið þess verið víkkað til móts við þær breytingar sem hafa orðið í ríkjum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og ríkjum Mið- og Austur-Evrópu. Tíu lýðræðisríki úr hópi fyrrverandi kommúnistaríkja hafa nú aukaaðild að þinginu auk hlutlausu Evrópuríkjanna fjögurra; Austurríkis, Sviss, Svíþjóðar og Finnlands, sem þýðir að þau geta tekið þátt í störfum og umræðum á þinginu. Störf þingsins beinast í auknum mæli að öryggismálum Evrópu í heild, efnahagslegum og pólitískum vandamálum í Mið- og Austur-Evrópu og hinu hnattræna öryggiskerfi. Með Rose-Roth áætluninni styður þingið nú einnig við þróun þingbundins lýðræðis í ríkjum álfunnar og nálægum ríkjum.

Rétt aðeins um Íslandsdeildina og starfsemi hennar, en aðalmenn árið 2010 voru auk mín, sem er formaður deildarinnar frá þingflokki Samfylkingarinnar, hv. þingmenn Ragnheiður E. Árnadóttir, varaformaður úr þingflokki Sjálfstæðisflokks, og Birgitta Jónsdóttir úr þingflokki Hreyfingarinnar. Varamenn eru hv. þingmenn Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar, Ólína Þorvarðardóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, og Birgir Ármannsson, þingflokki Sjálfstæðisflokks, og ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang fyrir þetta ár. Íslandsdeildin hélt undirbúningsfundi fyrir ársfundi NATO-þingsins og skipaði sér í nefndir eftir því.

Ég nefndi áðan að hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefði verið valin skýrsluhöfundur undirnefndar um öryggis- og varnarsamstarf yfir Atlantsála, sem er önnur af tveimur undirnefndum varnar- og öryggismálanefndar. Það var gert á ársfundi NATO-þingsins í Reykjavík í október 2007. Hlutverk skýrsluhöfunda er að taka saman skýrslu um málefni sem undirnefndin kýs að taka til sérstakrar skoðunar og leggja fram drög að ályktun um málið á fundi varnar- og öryggismálanefndar sem síðar fer fyrir þingfund NATO-þingsins.

NATO-þingið heldur tvo þingfundi árlega, vorfund og ársfund að hausti, sem var nú síðast í Varsjá í Póllandi. Á svokölluðum febrúarfundum heldur stjórnarnefndin fund með framkvæmdastjóra NATO og Norður-Atlantshafsráðinu, auk þess sem stjórnmálanefnd, efnahagsnefnd og varnar- og öryggismálanefnd halda sameiginlegan fund. Enn fremur kemur stjórnarnefnd þingsins saman til fundar í mars ár hvert.

Dagana 14.–16. febrúar var efnt til febrúarfunda NATO-þingsins í Brussel en það eru sameiginlegir fundir stjórnmálanefndar, efnahagsnefndar og varnar- og öryggismálanefndar.

Marsfundur stjórnarnefndar fór að þessu sinni fram í Memphis í Tennessee, heimafylki bandaríska fulltrúadeildarþingmannsins Johns Tanners, sem gegndi fyrir það starfsár embætti forseta NATO-þingsins en var á þeim NATO-fundi að kveðja og láta af störfum enda ekki í framboði aftur til bandaríska þingsins. Á meðal helstu dagskrármála fundarins voru samskipti NATO-þingsins og rússneska þingsins, kynjasjónarmið í öryggismálum, framlag NATO-þingsins til mótunar nýrrar grundvallarstefnu bandalagsins og samstarfið yfir Atlantsála. Af hálfu Íslandsdeildar sótti sá sem hér stendur auk Stígs Stefánssonar, starfandi ritara, þann fund.

Eins og ég nefndi áðan var ársfundur NATO-þingsins í fyrra í Varsjá í Póllandi dagana 12.–16. desember og af hálfu Íslandsdeildar fóru auk mín hv. þingmenn Ragnheiður Elín Árnadóttir og Birgitta Jónsdóttir auk Örnu Gerðar Bang ritara. Rúmlega 260 þingmenn frá 28 aðildarríkjum NATO og fulltrúar yfir tuttugu annarra ríkja sóttu ársfundinn.

Margt fleira mætti telja upp sem fram fór á annasömu starfsári NATO fyrir árið 2010 og kemur hér fram í fylgiskjali yfirlit yfir ályktanir NATO-þingsins árið 2010. Gera má ráð fyrir að það starfsár sem nú stendur yfir verði ekki síður annasamt ef ekki enn annasamara í ljósi átaka í Afríku og arabaheiminum og þeirrar áleitnu spurningar sem NATO stendur frammi fyrir á þessu augnabliki um þátttöku í aðgerðum til að stöðva og koma í veg fyrir blóðsúthellingar og þjóðarmorð í Líbíu. Vonandi bera Sameinuðu þjóðirnar, NATO og Bandaríkin gæfu til að taka ákvörðun um að grípa til aðgerða nú þegar sem megi verða til að stöðva þá hörmulegu atburðarás sem á sér stað í Líbíu og var rædd hér utan dagskrár á Alþingi við utanríkisráðherra rétt fyrir hádegið.