139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

NATO-þingið 2010.

611. mál
[14:32]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni, formanni Íslandsdeildar NATO-þingsins, fyrir ræðu hans og góða yfirferð yfir skýrslu Íslandsdeildar NATO-þingsins fyrir síðasta ár. Ég get tekið undir allt sem þar kom fram og ætla ekki að endurtaka það.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að þetta var annasamt ár. Ég verð að segja fyrir sjálfa mig — ég hef verið meðlimur í þessari Íslandsdeild alveg frá því að ég tók sæti á þingi árið 2007 — að þetta er ákaflega lærdómsríkt samstarf og maður fær þarna innsýn inn í starf bandalagsins á einstaklega mikilvægan hátt sem og heyrir sjónarmið þingmanna frá öllum NATO-ríkjunum. Þetta er í rauninni eini vettvangurinn innan bandalagsins þar sem þjóðkjörnir fulltrúar hafa tækifæri til að skiptast á skoðunum og taka þátt í þessu mikilvæga starfi. Það sem er gleðilegt við þetta er að við vitum og höfum af því góða reynslu að það sem fram fer á NATO-þinginu ratar inn í bandalagið sjálft, inn í ákvarðanir og stefnumótun bandalagsins, eins og til að mynda starfið varðandi grunnstefnu bandalagsins, endurskoðun á grunnstefnunni sem formaður Íslandsdeildarinnar nefndi áðan að mikil vinna var unnin að á vettvangi NATO-þingsins við að ná fram sjónarmiðum einstakra aðildarríkja og þingmanna sem sáust svo glögg merki um þegar grunnstefnan kom fram.

Mig langaði aðeins að ræða, og kannski í framhaldi af þeirri umræðu sem við hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir áttum áðan þegar hún flutti skýrslu Norðurskautsráðsins, stuttlega efni þeirrar skýrslu sem ég sem skýrsluhöfundur lagði fyrir þingið og var samþykkt á haustdögum. Ég tel mikilvægt að gera Alþingi Íslendinga örstutta grein fyrir því vegna þess að þetta umræðuefni, öryggi á norðurslóðum, snertir okkur beint og er, eins og mætti orða það, í okkar bakgarði. Þessi málefni, málefni norðurslóða, verða sífellt mikilvægari jafnt fyrir ríkin sem beinna hagsmuna eiga að gæta, t.d. eins og við Íslendingar og þá á ég við sökum landfræðilegrar legu, sem og fyrir alþjóðasamfélagið í heild, eins og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir rakti hér ágætlega í sínu máli.

Útgangspunkturinn í skýrslu minni og spurningin sem ég reyndi að svara var hvort bandalagið hefði eitthvert hlutverk, hvort það væri eitthvert hlutverk fyrir NATO á norðurslóðum. Ég byrjaði eiginlega á að svara þeirri spurningu játandi út frá þeirri grundvallarforsendu að innan bandalagsins eru fimm aðildarríki sem teljast til norðurskautsríkja. Það eru Bandaríkin, Kanada, Noregur, Danmörk og Ísland. Af þessari ástæðu einni saman tel ég einsýnt að bandalagið hafi þarna hlutverki að gegna. Ég ítreka að þrátt fyrir það er einlæg skoðun mín, og held ég allra annarra og ég varð vitni að því í þessari vinnu, að hlutverk bandalagsins sé ótvírætt án þess þó að í því felist einhver hernaðarleg uppbygging eða ógn, þó svo að við þessa vinnu hafi komið skýrt fram, þrátt fyrir vilja allra til að halda öllu stöðugu og mönnum sé öllum mikið í mun að skapa engan óróa á þessu svæði og ég held að það sé einlægur metnaður allra, að það á sér stað ákveðin hernaðaruppbygging þarna sem sést bæði á uppbyggingu í Thule, aukinni viðveru Rússa, flugi, Norðmenn hafa verið að sameina stjórnstöðvar á einn stað til að dekka þetta svæði betur og þar fram eftir götunum.

Það sem ég tel að bandalaginu beri að gera er að nota þau miklu tæki og þau tól sem til eru innan bandalagsins og stefnuna sem upp á ensku heitir „comprehensive approach“, þ.e. að láta sinna verkefnum hvort sem þau eru borgaraleg eða hernaðarleg, t.d. eins og leit og björgun, barátta við hryðjuverkaógn, umhverfisslys. Allt þetta getum við átt á hættu að gerist á norðurslóðum og það þarf að passa upp á slíkt vegna þess að ríkin ein og sér munu ekki geta komið til bjargar, t.d. ef stórt skemmtiferðaskip færi niður eins og er vel hugsanlegt að geti gerst. Að mínu mati er nauðsynlegt að NATO viðhaldi þekkingu og skilningi á málefnum stjórnmála, viðskipta og umhverfis á norðurskautssvæðinu og bandalagið ætti að styðja við þær svæðisbundnu alþjóðastofnanir og samtök, eins og Norðurskautsráðið, sem eru þegar til staðar og gegna hlutverki sínu með sóma.

Síðan vildi ég í lokin rétt tæpa á framtíðarverkefnum sem blasa við. Þau voru aðeins rædd hér í utandagskrárumræðu áðan og hvað getur lent á borði bandalagsins. Það er ekki óhugsandi, og er þegar komið, að vandamálin í Líbíu verði til umræðu innan bandalagsins og það sem meira er að bandalagið og þar með talið Ísland standi frammi fyrir erfiðum ákvörðunum á næstunni. Varnarmálaráðherrar NATO-ríkjanna funduðu í seinustu viku þar sem hið alvarlega ástand í Líbíu var rætt og var samþykkt að auka viðveru NATO-flotans á Miðjarðarhafinu. En það var algjörlega ljóst eftir þann fund að NATO-ríkin munu setja ströng skilyrði fyrir því að hefja afskipti af átökunum í Líbíu. Þörfin fyrir flugbann verður að vera ótvíræð auk þess sem stuðningur frá alþjóðastofnunum, sérstaklega öryggisráðinu, Arababandalaginu og Afríkusambandinu, er nauðsynleg forsenda. Þetta vitum við að er kannski hin pólitíska saga sem kennir okkur að hafa vaðið fyrir neðan okkur, ef hægt er að orða það svo.

Þá er sá galli á hvort einhvern tíma verður næg samstaða til að bregðast við og það er eiginlega næsta spurning: Hvað gerist ef ekki næst samstaða t.d. í öryggisráðinu eða meðal NATO-ríkjanna? Nú hafa bæði Þjóðverjar og Tyrkir lagst gegn flugbannshugmyndum og við vitum um andstöðu Rússa við það innan öryggisráðsins. Bandalagið stendur því frammi fyrir erfiðum ákvörðunum varðandi Líbíu sem geta haft víðtækar afleiðingar og geta lent á borði okkar hér og jafnvel í þennan sal ef til þess kemur að taka þurfi ákvörðun um hvort hernaðarleg íhlutun eigi sér stað eða ekki. Það er kannski minnsta málið að vera þátttakandi í samstarfi þar sem svona fyrirvarar eru settir ef þeim er mætt, ef ákveðið verður að fara inn í Líbíu til að frelsa fólkið þar undan þessum ógnarharðstjóra með samþykki alþjóðasamfélagsins, öryggisráðsins, NATO-ráðsins og ef allir eru um borð er þetta ekkert sérstaklega erfið ákvörðun vegna þess að þá er samstaða um það. Og þá er spurningin: Hvað gera íslensk stjórnvöld, hvað gera einstök ríki ef ekki næst samstaða? Það er kannski hin pólitíska erfiða spurning sem við gætum staðið frammi fyrir og verðum að vera búin að hugsa hvernig við ætlum að svara.

Ég læt þessu lokið, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) og efast ekki um að hægt væri að halda mun lengri ræður um Íslandsdeild NATO-þingsins.