139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

ÖSE-þingið 2010.

606. mál
[15:33]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir skýrslu Íslandsdeildar ÖSE-þingsins fyrir árið 2010 sem er að finna á þskj. 1026. Þar koma fram ítarlegar upplýsingar en ég ætla að fara í gegnum helstu atriðin.

Í tilefni af 35 ára afmæli Helsinki-yfirlýsingarinnar var ákveðið að halda fyrsta leiðtogafund ÖSE síðan 1999 og fór hann fram í Astana í Kasakstan 1.–2. desember síðastliðinn. Því miður gátu Íslendingar ekki tekið þátt í þeim fundi vegna fjárskorts. Þar af leiðandi er lítið um það að segja nema að ekki tókst að ná samkomulagi um aðgerðaáætlun fyrir leiðtogafundinn til að ná fram umbótum á starfsemi ÖSE og vinna að lausn á þeim átökum sem hvað lengst hafa varað í álfunni, sem er með ólíkindum, frú forseti, en það er í Georgíu, Moldóvu og Nagorno-Karabakh. Þar er ágreiningur og viðvarandi hálfgildings stríðsástand.

Síðan gerðist það í Ósló 6.–10. júlí að hv. þm. Róbert Marshall, formaður Íslandsdeildar, lagði fram tillögu að ályktun fyrir hönd deildarinnar í tilefni af 10 ára afmæli ályktunar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um konur, frið og öryggi, og var tillagan samþykkt. Ég held að það hafi verið í fyrsta skipti, og ég held að ég fari alveg rétt með það, sem Íslandsdeildin eða Íslendingar hafa komið í gegn ályktun hjá ÖSE-þinginu.

Farið var í mörg kosningaeftirlit og sérstaklega rætt um kosningarnar í Aserbaídsjan, en þar var talið að möguleikar frambjóðenda til að koma sér á framfæri væru ekki jafnir, sem er kannski áhugavert fyrir okkur á Íslandi með tilliti til kosninganna 9. apríl. Það er spurningin um að öll sjónarmið komist á framfæri á hlutlausan hátt.

Ég er sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins í fjárreiðum ÖSE og kem á eftir inn á muninn á ÖSE-þinginu og ÖSE. Ég átti fjarfund með starfsfólki á skrifstofu ÖSE í Albaníu til að fylgja eftir heimsókn minni til landsins árið 2007. Ég vil benda sérstaklega á það, frú forseti, af því að þarna var fjarfundur haldinn á netinu í gegnum skype sem kostaði náttúrlega miklu minna, eiginlega ekki neitt, en hann hefði ella gert, og tók miklu styttri tíma. Mætti hafa það í huga við alls konar alþjóðleg samskipti að Alþingi noti sér meira tækni netsins í slíkum tilfellum. Þarna átti ég sem sagt fundi með fólki sem ég hafði heimsótt fyrir þremur eða fjórum árum og fylgdi eftir því sem ég ræddi við það þá. Erindi mitt þá til Albaníu var að kanna baráttu ÖSE gegn mansali sem var talið útbreitt í Albaníu. Þar átti sér greinilega stað mikið mansal á fólki, aðallega á ungum konum frá Albaníu og löndum austan við Albaníu, sem streymdu í gegn yfir til Ítalíu. Þaðan dreifðist þetta fólk um Evrópu, ekki af sjálfsdáðum og ekki vegna þess að það vildi það, heldur af því að það var selt. Það er skuggalegur blettur á mannkyninu.

Það sem gerðist var að ÖSE hafði styrkt Albana til að reyna að loka landamærum. Ferðir hraðbáta yfir sundið til Ítalíu voru bannaðar, skógur við austurlandamæri Albaníu var ruddur og landamæralögreglan fékk nætursjónauka þannig að segja má að tekist hafi að loka bæði grænu og bláu landamærunum, sem þeir kalla svo, þ.e. sjóleiðinni og landleiðinni. Eftir stendur mansal á fólki frá Albaníu sjálfri hugsanlega yfir til Grikklands, en þeim landamærum var ekki lokað svo mér sé kunnugt.

ÖSE gerði annað sem er athyglisvert. Þeir rákust á að þegar einhvers staðar fannst manneskja sem seld hafði verið mansali í einhverju landi í Evrópu, barn, stúlka eða kona eða verkamaður, og gaf upp að hún væri Albani, var ekki nokkur leið að kanna það vegna þess að það voru ekki til nein heimilisföng í Albaníu. Götur höfðu ekki heiti og hús ekki númer. Því var breytt að tilstuðlan ÖSE, öllum götum voru gefin heiti og öllum húsum húsnúmer og komið var upp manntali eða þjóðskrá sem meira að segja var með lífsýnum, þannig að núna, ef einhver finnst einhvers staðar í Evrópu og er talinn vera frá Albaníu eða segist vera þaðan er hægt að staðsetja hann í þjóðskránni. Það er afskaplega merkilegt og gerir mansal öllu erfiðara. Það kemur ekki í veg fyrir mansal en gerir það erfiðara en verið hefur. Það hafði auk þess margs konar önnur áhrif eins og t.d. að hægt er að koma með veðbókarvottorð og skrá eignir og annað slíkt sem ekki hafði verið hægt áður og mun örugglega hafa mjög mikil efnahagsleg áhrif, þannig að það er mjög athyglisvert. Á fyrrgreindum fjarfundi fékk ég að vita að 85% þjóðarinnar séu skráð en því miður situr eftir sá hópur fólks sem kannski er viðkvæmastur, það eru rómanar, öðru nafni sígaunar, sem verða því miður öðru fólki fremur fórnarlömb mansals í þessu landi.

Rétt aðeins um ÖSE-þingið og ÖSE. ÖSE sjálft var stofnað upp úr Helsinkisáttmálanum 1974 og er því 35 ára núna. Það var mjög merkilegt samkomulag sem segja má að hafi bundið enda á kalda stríðið. Síðan var ÖSE-þingið stofnað við hlið ÖSE-samtakanna og þar starfa núna 320 fulltrúar frá 56 þjóðríkjum allt frá Kanada austur til Kasakstan og til austurstrandar Rússlands, það fer eiginlega í kringum hnöttinn norðanverðan.

Ég hugsa að ég fari ekki mikið meira í það en haldnir eru þrír fundir á ári; það er vetrarfundurinn í Vínarborg, sumarfundurinn eða aðalfundurinn sem haldinn er í ýmsum ríkjum, og svo eru sérstakir haustfundir sem yfirleitt eru haldnir í kringum Miðjarðarhafið til að ræða vandamál þess svæðis sérstaklega.

Á vetrarfundinum í Vínarborg fyrir rúmu ári síðan, í febrúar 2010, var sérstök umræða um stöðu mála í Afganistan en ÖSE heitir jú Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu þannig að hún berst fyrir því að bæta öryggi. Þar af leiðandi er mikið rætt um stöðu mála í Afganistan. Þar sagði Kassym-Jomart Tokayev, forseti efri deildar löggjafarþings Kasakstan og varaforseti ÖSE-þingsins, að ríki í Mið-Asíu færu ekki varhluta af ástandinu í Afganistan sem væri litað af 30 ára stríðsátökum, harðstjórn trúarofstækismanna, stríðsherra og hryðjuverkamanna, framleiðslu á ópíum, sem margir hefðu lifibrauð sitt af og talið er að svari um 93% af ólöglegu framboði á heimsmarkaði, og flóttamannastraumi. Það væri það sem einkenndi ástandið á því svæði og að væri ekki vanþörf á því að ÖSE gripi þar inn í.

Síðan ræddi Voisin, sem er sérlegur fulltrúi forseta ÖSE-þingsins um Afganistan, um ráðstefnu sem haldin var í London í janúar 2010 og sagði að hún væri góðra gjalda verð en spurningin væri hversu raunhæf þau markmið væru í ljósi vandans sem við væri að etja. Stjórnkerfið í Afganistan væri gegnsýrt af spillingu og þeir sem færu raunverulega með völdin væru glæpamenn, ekki einn heldur fjölmargir.

Í umræðunum kom fram almennur stuðningur við áframhaldandi veru alþjóðasamfélagsins í Afganistan en hins vegar voru menn ekki á því að hernaðarlegar leiðir væru til þess fallnar að leysa vandann heldur ætti að reyna að finna einhverja leið sem ekki væri hernaðarleg. Það var rætt mjög ítarlega á þessum fundi.

Þetta er rétt aðeins til þess að gefa sýn á starf ÖSE.

ÖSE starfar líka við kosningaeftirlit, að því að kosningar fari rétt fram, það gætir hagsmuna minnihlutahópa, berst gegn mansali, eins og ég gat um áðan, og vopnasmygli og gegn smygli á eiturlyfjum o.s.frv. ÖSE gætir jafnframt að því að fjölmiðlar séu í hávegum hafðir.

Haustfundur ÖSE-þingsins var haldinn í Palermó 8.–11. október 2010. Þar var rætt um varnir gegn spillingu og benti Miklos Marschall frá Transparency International á að talið væri að 1 billjón bandaríkjadala tapaðist á ári hverju vegna spillingar. Á sömu ráðstefnu, á málþingi um mansal, benti Jonathan Eyers, yfirmaður mansalsmála hjá Interpol, á að talið væri að einungis 5% mansalsmála kæmu til kasta yfirvalda og að aðeins um 1% fórnarlamba sé bjargað. Mansal er nú annar umfangsmesti milliríkjaglæpurinn og veltir um 32 milljörðum bandaríkjadala árlega. Það er, eins og ég gat um áðan, svartur blettur á samfélaginu.

Í umræðunum um mansal var bent á að ein af höfuðástæðum þess að upp kemst um svona fá mál er sú að fórnarlömb veigri sér við að leita til yfirvalda vegna ótta við að þeim verði umsvifalaust vísað úr landi eins og hverjum öðrum glæpamönnum. Það er vandamál sem við höfum nokkuð rætt á Íslandi.

Ég þakka samstarfið við nefndarmenn sem eru hv. þm. Róbert Marshall, formaður nefndarinnar, og hv. þm. Björn Valur Gíslason varaformaður, og svo þakka ég ritara nefndarinnar sérstaklega fyrir samstarfið.

Aðrar upplýsingar um ÖSE og ÖSE-þingið er að finna á þskj. 1026.