139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 um breytingu á IX. og XII. viðauka við EES-samninginn.

581. mál
[16:05]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Sú tillaga sem ég mæli nú fyrir er ekki síður gagnleg og þörf en sú sem ég mælti fyrir áðan. Með henni leita ég fyrir hönd ríkisstjórnar heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir hönd íslensku þjóðarinnar ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 um breytingu á IX. og XII. viðauka við EES-samninginn, um annars vegar fjármálaþjónustu og hins vegar frjálsa fjármagnsflutninga. Sömuleiðis er um leið fellt inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB, en hún felur í sér breytingu á tilskipun 98/26/EB um endanlegt uppgjör í greiðsluuppgjörskerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf og tilskipun 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir að því er varðar tengd kerfi og skuldaviðurkenningar. Af þessum lestri, frú forseti, geta allir séð og skilið, sérstaklega hv. þm. Birgir Ármannsson sem er í salnum væntanlega til að taka þátt í umræðunni, að hér er um hið þarfasta mál að ræða.

Með þessari tilskipun er ákvæði um tveggja eldri tilskipana breytt, þ.e. annars vegar tilskipun 98/26/EB, en henni er ætlað að tryggja skilvirkari og öruggari fjármálaviðskipti á hinum sameiginlega innri markaði, og hins vegar tilskipun 2002/47/EB, sem er ætlað að stuðla að opnari og hagkvæmari fjármagnsmörkuðum og auknum stöðugleika fjármálakerfisins.

Ítarlegri umfjöllun um þær tilskipanir er að finna í þingsályktunartillögunni og læt ég duga að vísa til hennar hvað þær varðar. Sömuleiðis verða þær síðar útfærðar í lagafrumvarpi sem mun koma fram, þ.e. ef Alþingi fellst á þá tillögu sem ég mæli núna fyrir.

Meginbreytingarnar sem leiðir af þessari tilskipun stafa af því að komnar eru til auknar tengingar milli greiðslukerfa við landamæri. Áður voru kerfin meira og minna landsbundin og voru sjálfstæð. Nú er verið að breyta skilgreiningum og þar með gildissviði, auk þess sem líka er verið að gera efnislegar breytingar á ákvæði um greiðslujöfnun og greiðslufyrirmæli, raunar líka um gjaldþrotaskipti og upplýsingagjöf vegna þátttöku í greiðslukerfi. Að nokkru leyti er um að ræða tæknilegar breytingar, auk þess sem smávægilegar aðrar breytingar eru jafnframt gerðar. Þrátt fyrir það er ljóst að innleiðing hennar í innlendan rétt kallar á lagabreytingar hér á landi. Því var eins og með þá tillögu eða þá ákvörðun sem leiddi til tillögunnar sem ég mælti fyrir áðan á sínum tíma gerður stjórnskipulegur fyrirvari við ákvörðunina sem tekin var í sameiginlegu EES-nefndinni af þessu tilefni samkvæmt ákvæði stjórnarskrár.

Innleiðing breytinganna, sem leiðir af tilskipuninni 2009/44/EB og ég nefndi hér áðan, kallar á að gerðar verði breytingar á tvenns konar lögum. Annars vegar er um að ræða lög nr. 90/1999, en þau varða öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum, og hins vegar lög um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir, nr. 46/2005. Lögin sem á að breyta heyra því undir tvo ráðherra. Reiknað er með að þeir báðir leggi fram lagafrumvörp á yfirstandandi vorþingi til að breyta þeim lögum sem ég nefndi. Þannig hyggst hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra leggja til breytingar á lögum nr. 90/1999 og hæstv. innanríkisráðherra leggja fram breytingar á lögum nr. 46/2005, þar sem kveðið verði á um að ráðstafanir samkvæmt þeim nái einnig yfir svokallaðar skuldakröfur. Ekki er gert ráð fyrir að þessar lagabreytingar hafi í för með sér umtalsverðan kostnað fyrir ríkissjóð né heldur að af þeim leiði stjórnsýslulegar breytingar svo nokkru nemi.

Eins og ég hef þegar getið um í framsögu minni, frú forseti, var þessi ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar tekin með stjórnskipulegum fyrirvara þar sem hún kallar á þær lagabreytingar sem ég hef gert grein fyrir. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst þannig að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara í samræmi við þær reglur sem Alþingi hefur sett um þinglega meðferð þessara mála.

Ég legg til, frú forseti, að þegar þessari umræðu lýkur verði tillögunni vísað til hv. utanríkismálanefndar.