139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 50/2010 um breytingu á IX. og XII. viðauka við EES-samninginn.

581. mál
[16:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta felur ekki af minni hálfu í sér neina yfirlýsingu um sérstakar breytingar á framtíðarstefnu okkar í peningamálum. En til að ég svari spurningu hv. þingmanns einarðlega þá hef ég látið undir höfuð leggjast að ræða þetta við þá tvo ágætu samráðherra mína sem hv. þingmaður nefndi. Ég hef gríðarlega mikla trú á skilvirkni utanríkismálanefndar og málið er komið til þingsins. Ég hef ekki frekari afskipti af því. Síðan er það þingsins að vega og meta með hvaða hætti það afgreiðir þessa þingsályktunartillögu, sömuleiðis með þeim umbúnaði sem felst þá í áliti nefndarinnar þegar að lyktum þeirrar vinnu dregur. Nú er það svo að hægt er að styrkja framkvæmd peningamálastefnu Evrópusambandsins með öðrum hætti en endilega þeim að vera aðili að því. Evrópusambandið og ríki þess og seðlabankinn hefur samskipti við mörg nágrannaríki. Ég geri ráð fyrir að út úr þessu megi lesa ákveðinn vilja af hálfu þessara aðila til að haga framkvæmd þess samstarfs með þeim hætti sem báðum er hagfelldur.

Það liggur alveg ljóst fyrir að hér er ekki verið að leggja fram ályktunartillögu sem felur í sér einhverja yfirlýsingu um mál sem íslenska þjóðin á eftir að taka afstöðu til.

Sömuleiðis vil ég segja að með innleiðingu þessarar tilskipunar, sem verður þá heimil ef Alþingi samþykkir það, þarf að leggja fram tvö lagafrumvörp. Þar er hin tæknilega útfærsla. Hv. utanríkismálanefnd hefur í fyrsta lagi öll föng á því að gera athugasemdir sínar hvernig megi útfæra slíkt og í öðru lagi er það síðan viðkomandi fagnefndar þegar frumvörpin koma, annað úr ranni (Forseti hringir.) þess flokks sem hv. þingmaður tilheyrir, hvernig það verður líka útfært. Ég á ekki von á því, frú forseti, að hæstv. (Forseti hringir.) innanríkisráðherra muni gera miklar breytingar á þeirri stefnu sem nú er í peningamálum íslensku þjóðarinnar.