139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:29]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér afnám vatnalaga, nr. 20/2006, og breytingar á vatnalögum frá árinu 1923. Fyrirkomulag vatnsréttinda hefur að mestu verið með sama hætti frá landnámi eins og fram kemur í Grágás, Jónsbók og vatnalögunum frá 1923. Hefðin hefur verið að almannahagsmunir hafa verið tryggðir, en myndast hefur séreignarréttur hjá landeigendum. Opinberir aðilar eiga nú um 75% allra vatnsréttinda á Íslandi og landeigendur, sem eru að mestu bændur, um 25%. Þannig segja lögin frá 1923 að landeigendur hafi afnota- og nýtingarrétt af vatni á landi sínu þrátt fyrir að vatn sé almannagæði. Dómaframkvæmd síðustu 90 árin hefur síðan verið sú að meðhöndla vatn sem sérgæði. Þetta hefur m.a. komið fram í að landeigendum hafa verið dæmdar eignarnámsbætur þegar vatn er tekið eignarnámi af landi þeirra. Bestu dæmin eru eignarnámsbætur sem Landsvirkjun hefur m.a. þurft að greiða landeigendum vegna virkjunar Blöndu, Kárahnjúka og Þjórsár. Jafnframt hafa einkaaðilar sem vilja nýta vatn á jörðum landeigenda í stórum stíl, til að mynda til að flytja út, greitt fyrir afnotin.

Vatnalögin ollu miklum deilum á Alþingi þegar þau voru sett vorið 2006. Deilurnar má ekki síst rekja til breytts orðalags á ákvæði um eignarráð yfir vatni þar sem í stað þess að tala um afnota- og nýtingarrétt af vatni kváðu lögin á um eignarrétt landeigenda og var það gert til að skýra þá dómaframkvæmd sem tíðkast hafði. Um þetta eru helstu eignarréttarsérfræðingar okkar Íslendinga sammála. Réttur almennings breyttist í engu við þessa orðalagsbreytingu, en hann varð tvímælalaust skýrari. Um þetta snerust deilurnar. Sagt var að verið væri að einkavæða vatnið með breytingunni sem er að sjálfsögðu alrangt. Lögin kveða skýrt á um að heimilisnotkun njóti forgangs, þar á eftir notkun til búreksturs og þar á eftir notkun sveitarfélaga.

Við 2. umr. um frumvarpið náðu þingflokkarnir samkomulagi um meðferð þess og gerði þáverandi iðnaðarráðherra grein fyrir því 15. mars 2006. Fól samkomulagið í sér að þáverandi iðnaðarráðherra mundi eftir að frumvarpið hefði verið samþykkt skipa nefnd sem taka skyldi til skoðunar samræmi laganna við önnur ákvæði íslensks réttar sem vatn og vatnsréttindi varðar. Samkomulagið fól jafnframt í sér að gildistöku vatnalaga yrði frestað til 1. nóvember 2007, en þá mundu eldri vatnalög frá 1923 jafnframt falla úr gildi. Nefndin var ekki skipuð og var gildistöku enn frestað til 1. nóvember 2008. Nefndin var loks skipuð þverpólitískt 15. janúar 2008 og skilaði hún af sér 215 blaðsíðna skýrslu þann 9. september 2008. (Utanrrh.: Einn maður sem mundi eftir …)

Ein af fjórum tillögum nefndarinnar var að fresta skyldi gildistöku vatnalaga frá 2006 og að ný nefnd yrði skipuð sem hefði það hlutverk að vinna að endurskoðun laganna. Í skýrslu vatnalaganefndar segir, með leyfi forseta:

„Í fjórða lagi leggur vatnalaganefnd til að gildistöku vatnalaga, nr. 20/2006, verði frestað tímabundið meðan nefnd sem skipuð verði á vegum iðnaðarráðherra, og í samráði við umhverfisráðherra og forsætisráðherra, vinni að endurskoðun laganna í samræmi við tillögur vatnalaganefndar.“

Í kjölfarið var gildistöku vatnalaganna frestað til 1. júlí 2010. Þann 1. júlí 2009 var vatnalaganefnd 2 skipuð, en nú bar svo við að ekki var leitað eftir fulltingi stjórnarandstöðu. Þann 1. desember 2009 skilaði nefndin drögum að frumvarpi um ný vatnalög til iðnaðarráðherra. Það er skemmst frá því að segja að iðnaðarnefnd voru ekki kynnt drögin að frumvarpinu, heldur var nefndinni sent frumvarp um afnám vatnalaga frá 2006 sem ætlunin var að gera að lögum fyrir þinglok í fyrravor. Þetta var skýlaust brot á því samkomulagi sem birtist í skýrslu vatnalaganefndar 1 sem kvað á um að nýtt frumvarp leysti vatnalögin frá 2006 af hólmi. Ljóst er að rjúfa átti þá sátt sem náðst hafði og stefna Alþingi til ófriðar með þessu háttalagi. (Iðnrh.: Bölvuð vitleysa.) Í stað þessarar málsmeðferðar lagði stjórnarandstaðan, að undanskilinni Hreyfingunni, til að vatnalögunum frá 2006 yrði frestað og að tíminn yrði notaður til að ná pólitískri sátt um þetta mikilvæga mál og að í framhaldinu yrði lögfest frumvarp sem leysti lögin frá 2006 af hólmi. Stjórnarflokkarnir féllust á að málsmeðferð sú sem við sjálfstæðismenn lögðum til og lögðum áherslu á væri líklegust til sátta í þessu mikilvæga máli.

Nú kemur fram ný hugmynd um að gera breytingar á vatnalögunum frá 1923 sem mér sýnist fljótt á litið vera í fullu samræmi við þann málflutning sem við sjálfstæðismenn vorum með vorið 2010. Með því er ljóst að menn vilja halda friðinn. Eftir að hafa sagt það tek ég mér það bessaleyfi og áskil mér þann rétt að við meðferð iðnaðarnefndar muni ég tjá mig betur um þetta mál eftir því sem tilefni er til. [Kliður í þingsal.]