139. löggjafarþing — 96. fundur,  17. mars 2011.

vatnalög.

561. mál
[16:49]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í morgun lukum við 2. umr. um vatnamálalög, ætli það verði ekki að kalla þau það í skorti á öðru betra nafni, sem byggjast á þeirri evrópsku vatnatilskipun sem mikið var rædd hér í vatnaumræðunni 2005 og 2006. Nú er mælt fyrir sjálfu vatnalagafrumvarpinu þannig að töluvert hefur gerst í þeim mikilvæga málaflokki á þessum þingdegi. Full ástæða er til að fagna frumvarpinu þó að vissulega þurfi að lesa það vel yfir eins og síðasti hv. ræðumaður sagði og athuga málið gaumgæfilega, sérstaklega af því að verið er að koma gömlu vatnalögunum frá 1923 örugglega í gildi á ný og ryðja burt hinni óþörfu breytingu frá 2006 sem olli miklum deilum og í raun óþörfum, að mér heyrðist á síðustu tveimur ræðumönnum. Menn virðast eftir allt saman hafa verið nokkuð sammála um að meginbreytingarnar, sem harðast var deilt um á þeim tíma, hafi verið lítils virði og gagnslausar.

Það er sérkennilegt að mörgum virðist þykja vænt um vatnalögin frá 1923. Ég hef tekið eftir því í hópum lögfræðinga að þeir kinka kolli yfir þeim og það kemur á þá svona sælubros. Það er kannski vegna þess að lögin sjálf eiga sér merka sögu, í þeim eru textabrot sem spanna alla íslenska lagasögu og nokkur ákvæði eiga sér uppruna í Jónsbók frá árinu 1280 sem nálgast hina miklu 13. öld í Íslandssögunni og Jónsbókarákvæðin hvíla síðan á Grágásargrunni þannig að við komumst ekki öllu lengra aftur í söguna. Ætli Grágásarlögin byggist svo ekki á samgermönskum lagaarfi allt til ánna í Þýskalandi og siglinga forfeðra okkar í Noregi og um Norðurhöf sem þeir stjórnuðu reyndar um skeið í hinu mikla norræna heimsveldi sem var hér einu sinni. Þessi ákvæði eiga þó ekki neitt skylt við heimsveldið heldur eru þau afleiðing af daglegu starfi manna í íslenskri, norrænni og germanskri og evrópskri náttúru þar sem menn þurfa að koma sér saman um afnot af vatni og meðferð á því.

Gömlu vatnalögin frá 1923 eiga sér líka merka sögu sjálf, eins og við vitum og rakið er í frumvarpinu, og spanna að nokkru leyti íslenskan nútíma. Menn muna eftir fossalögunum frá 1907. Þau voru liður í deilum bænda við fossakapítalista af ýmsu tagi. Þar voru merkir karakterar í báðum hópum, sá frægasti er auðvitað Einar Benediktsson. Upp komu miklar deilur og andóf gegn þeim draumum sem þá voru uppi um fossanýtingu og virkjanir og gengu fæstir þeirra eftir á sínum tíma. Stofnuð var hin fræga fossanefnd sem skiptist í frægan meiri hluta og minni hluta. Þetta endaði með því að Einar Ásmundsson var fenginn til að semja frumvarp sem lagt var fram, að ég held, 1921 og að lokum samþykkt 1923. Þá starfaði þingið ekki jafnlengi árs og nú, ég man ekki hvort það kom saman á tveggja ára fresti, en a.m.k. var þetta svona og lokaniðurstaðan varð eins konar málamiðlun milli meiri hluta og minni hluta í því sem mestu skipti sem voru ákvæðin um eignarumráð landeigenda. Það skipti mjög miklu máli að vatnið, ár og stöðuvötn, og umráð yfir því væri tengt landi til þess að það gengi ekki sölum og kaupum í kauphöllum sem sérstök verðmæti. Auðvitað speglast bændasamfélagið í því og nútímaaðstæður gera það að verkum að þessi gamla lína varð átakalína hér á síðasta áratug þegar mest var deilt um vatnalögin í þinginu.

Það sem er kannski rétt að rifja upp í þessu samhengi að hér fóru fram miklar umræður, oft nokkuð góðar, röklegar og fræðilegar að sumu leyti, harðpólitískar og heiftúðugar að öðru leyti. Þær snerust um það sem á lögfræðimáli er kallað jákvæð og neikvæð ákvæði um eignarumráð. Í lögunum frá 1923 eru jákvæð ákvæði um eignarumráð, þ.e. eignarumráð landeigenda yfir vatni — þannig ég orði þetta kurteislega og varfærnislega — eru þau og aðeins þau sem upp eru talin í lögunum. Landeigendur hafa þau réttindi og geta gengið að þeim vísum en þeir hafa ekki önnur réttindi. Með lögunum sem að lokum voru samþykkt 2006 en hafa aldrei tekið gildi voru sett inn neikvæð ákvæði sem eru þannig að eignarumráðin eru algild nema að því leyti sem ákvæði laganna skerða þau. Um þetta var tekist á og því haldið fram, af hálfu þeirra sem studdu frumvarpið sem að lögum varð þó að þau hafi ekki tekið gildi, að í þessu fælust engar breytingar en við sem á móti stóðum töldum að verið væri að ákveða grundvallarbreytingar og rerum mjög gegn frumvarpinu af ýmsum orsökum. Ég ætla ekki að fara út í þær enda gefst nægur tími til að rifja það upp á þinginu ef menn vilja. Um þetta voru miklar umræður og mikil átök og blönduðust í það pólitísk tíðindi á þeim tíma. Eitt af því sem hafði áhrif á gildistöku þessa frumvarps voru starfslok eins af þeim forsætisráðherrum sem þá störfuðu hér í landinu. Við sjáum svo til hvort þetta endurtekur sig eða hvort við náum sáttum um meginatriðin í þessu, sem eru þá samkvæmt frumvarpinu þau sömu og ég rakti áðan — sem sé jákvæð ákvæði um eignarumráð þannig að eignarheimildir, eða réttur eða hvað það nú er, landeigenda um þau vötn sem við land þeirra eru séu tiltekin í lögunum og nái ekki lengra en það og þá taki almannarétturinn við.

Ég hlakka til að taka þátt í umræðu um þetta. Ég er að vísu ekki í hv. iðnaðarnefnd sem fær málið til vinnslu en þegar því er lokið kynnir hún auðvitað niðurstöðu sína.

Ég fagna því sérstaklega í þessari móttökuræðu minni að af hálfu hæstv. iðnaðarráðherra er því heitið að ekki verði látið við sitja í því efni að endurvekja eða gefa lögunum gömlu frá 1923, sem eiga sér virðulega forfeður, nýtt líf heldur er líka tekið fram í greinargerðinni, í athugasemdum í IV. kafla, fyrsta undirkafla kaflans, að eftir að vatnalögin frá 1923 verði komin í öruggt og tryggt gildi á ný með þeim breytingum sem þarf á að halda í nútímanum verði hafist handa við að smíða nýja heildstæða vatnalöggjöf og þar á meðal sé nú unnið að yfirferð annarrar löggjafar á þessu sviði, svo sem lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Í greinargerðinni stendur síðan, með leyfi forseta:

„… með það fyrir augum að samræma réttarreglur á þessu sviði í þeim anda sem lagt er til með frumvarpi þessu.“

Þetta skiptir mjög miklu máli vegna þess að verið er að tala um grunnvatnið og stefnan sem hér er mörkuð er þá sú að grunnvatnið verði klárlega í almannaeigu og lúti ekki einkaeignarrétti, sem lesa má út úr hinum tilteknu og fyrrnefndu lögum, og skiptir mjög miklu máli. Það er eðlilegt að menn hafi kosið að gera þetta ekki með breytingu á ákvæði í þessu frumvarpi, þ.e. með breytingu á vatnalögunum, heldur taki í horn á bola þar sem boli er staddur, sem er í hinum lögunum. Það er eiginlega aðalerindi mitt í ræðustól að fagna þessu fyrirheiti og heita við það stuðningi.