139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

fjárhagsleg endurskipulagning fyrirtækja og aukinn hagvöxtur.

[14:05]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er sammála hv. fyrirspyrjanda að það er ákaflega mikilvægur og stór hluti af því að koma hagkerfinu í gang að vinna úr skuldamálum fyrirtækja, þá ekki síst lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Allar kannanir sýna alltaf að uppspretta nýrra starfa er að uppistöðu til í stofnun nýrra fyrirtækja og vexti lítilla og meðalstórra fyrirtækja sem eru á leiðinni að verða stór. Það er alveg ljóst að þessi fyrirtæki hafa mörg hver ekki verið í færum til að fjárfesta, ráða fólk eða gera plön vegna þess að efnahagur þeirra hefur ekki boðið upp á slíkt. Þess vegna var mikilvægt að samkomulag tókst milli stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna um að setja í sérstakan forgang að vinna að málum allt að 6 þús. fyrirtækja, lítilla og meðalstórra.

Þetta er hins vegar viðamikil vinna og eðli málsins samkvæmt vex skriðþunginn eftir því sem á líður. Þegar ég athugaði með stöðu þessara mála síðast, sem kannski hefur verið í lok febrúar eða byrjun mars, voru a.m.k. 400 fyrirtæki komin með tillögu til að taka afstöðu til. Fyrirtækin þurfa stundum tíma til að meta þær tillögur sem bankinn leggur upp og bregðast þá við og fullnægja þeim skilyrðum sem skuldaendurskipulagningin byggir á þannig að framan af fara fyrstu tveir til þrír mánuðirnir í þessu ferli dálítið í þennan undirbúning en síðan á úrvinnslan að geta gengið hratt þegar gögnin eru komin.

Varðandi hagvöxtinn að öðru leyti tel ég að númer eitt hafi verið það sem hefur tekist, að innleiða stöðugleika, ná niður verðbólgu og vöxtum og koma á eðlilegu umhverfi hvað það snertir. Mætti þó gera betur í því að lækka vextina.

Í öðru lagi er það auðvitað mikilvæg forsenda endurreisnar líka úti í atvinnulífinu að hin opinberu fjármál komist í lag og að við tökumst á við hallarekstur opinbera geirans þannig að hann verði sjálfbær. Það skiptir líka máli gagnvart almennum viðgangi í hagkerfinu.

Í þriðja lagi þurfa menn að horfa af bjartsýni og kjarki til framtíðar og eygja þá miklu möguleika sem við eigum sem þjóð. (Forseti hringir.) Það hjálpar okkur lítið ef menn rembast við það dögum oftar að tala allt niður sem gert er. Það er algerlega á hreinu að þras um dægurmál á þingi (Forseti hringir.) tefur ekki innri vinnu bankanna ef hv. þingmaður hefur áhyggjur af því. [Kliður í þingsal.]