139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

staða ríkisstjórnarinnar.

[14:15]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Stefna ríkisstjórnarinnar er algerlega óbreytt. Hún er bundin í samstarfsyfirlýsingu flokkanna, völduð af samþykktum í flokksstofnunum og að sjálfsögðu stefnuskrá þeirra flokka sem að baki liggja. Engin breyting hefur orðið þar á. Ríkisstjórnin heldur áfram á þeim hinum sama grundvelli og hún hefur lagt upp með, með skýr leiðarljós um að endurreisa hér gott, lýðræðislegt og opið norrænt velferðarsamfélag (Gripið fram í: Og …) og það er það sem við erum að (Gripið fram í: … inn í Evrópusambandið.) vinna að. (Gripið fram í: … inn í Evrópusambandið.) Það er þjóðinni örugglega til uppörvunar að heyra þessar útsendingar héðan frá Alþingi þessa fyrstu hálftíma og sérstaklega hversu prúðir menn eru í þingsalnum. Ég hefði ekki viljað hafa suma þessa nemendur í skóla sem kennari, það verð ég að segja.

Ég legg til að menn staldri stundum við á Íslandi og velti fyrir sér hvað við eigum og hvað við höfum fyrir að þakka. Við búum í 10.–15. mesta velmegunarsamfélagi hnattarins í dag þrátt fyrir hrunið sem hér varð (Forseti hringir.) og við erum í góðu samfélagi með sterka innviði. Því miður eiga þúsundir um sárt að binda og eiga erfitt, sérstaklega þeir sem hafa misst vinnuna og (Forseti hringir.) þeir sem lifa af lágmarksbótum eða félagslegri framfærslu. En það er heldur ekki ófriðarbál í okkar landi. Við erum með (Forseti hringir.) sterkt og vel þróað samfélag með öfluga innviði og hv. svartsýnis- og bölsýnismenn (Forseti hringir.) sem eru með himininn helltan af myrkri, fullan upp á hvern dag, (Forseti hringir.) svo vitnað sé í gamalt textabrot, ættu að hafa þetta í huga. [Hlátur í þingsal.]