139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

álver við Bakka.

[14:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Eins og komið hefur fram í fjölmiðlum að undanförnu hafa átt sér stað viðræður milli Landsvirkjunar og Alcoa um orkukaup þess síðarnefnda vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar álvers á Bakka við Húsavík. Fréttir herma að viðræðurnar gangi vel, þær séu flóknar en vilji sé hjá báðum aðilum til að landa málinu.

Ástæðan fyrir því að málið er komið svona vel á veg er fyrst og fremst kraftur og vilji heimamanna til að sporna við fólksfækkun og fækkun starfa í Þingeyjarsýslu. Það er líka samstaða og samvinna fólks á norðausturhorninu sem hefur skilað þessum mikla árangri og nú vantar bara lokahnykkinn á þetta mikilvæga verkefni.

Framsóknarflokkurinn vann stórsigur í Norðurþingi í síðustu sveitarstjórnarkosningum og hefði getað myndað meiri hluta með einum manni frá einhverjum öðrum flokki. Í krafti samstöðunnar og mikilvægis verkefnisins bauð hann öllum stjórnmálaflokkum að koma í sveitarstjórn, vinna saman og landa þessu verkefni. Samfylkingin og Sjálfstæðisflokkurinn þáðu boðið en Vinstri grænir heltust úr lestinni. Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. iðnaðarráðherra, núna þegar við sjáum vonandi fyrir endann á þessu máli, hvort við getum ekki hér á Alþingi slíðrað sverðin og allir þeir sem vettlingi geta valdið sameinast um að klára verkefnið. Við ykjum þar með hagvöxtinn á Íslandi, við mundum minnka atvinnuleysið og koma hjólum atvinnulífsins af stað. Ég er viss um að það er hægt að ná fram þessum þverpólitíska samningi (Forseti hringir.) og landa þessu verkefni. Ég spyr iðnaðarráðherra hvort hún sé ekki reiðubúin að leggjast á eitt með okkur hinum í þessu verkefni.