139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[14:50]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að hefja þessa umræðu um stöðu sparisjóðakerfisins. Það er vissulega rétt að sú nálægð sem sparisjóðirnir hafa haft við nærumhverfi sitt hefur skapað þeim ákveðin tækifæri. Það er líka mikilvægt að horfast í augu við það á hvaða rekstrargrundvelli og starfsgrundvelli þeir hafa að öðru leyti starfað.

Umræða um sparisjóðina fær oft á sig ákveðinn helgiblæ. Menn tala um sparisjóðakerfið eins og það sé allt annað kerfi en bankakerfið að öðru leyti. Það er mikilvægt til að horfa rétt á hlutina og grunnforsendurnar að minnast þess að á 9. áratugnum fengu sparisjóðirnir nánast sömu starfsheimildir og viðskiptabankarnir. Þeir hafa því í grundvallaratriðum starfað sem fjármálafyrirtæki sambærileg við viðskiptabanka í aldarfjórðung.

Mikilvægasta hlutverk sparisjóðanna hefur verið þjónusta við almenning og smærri fyrirtæki í dreifðum byggðum, ýmist einir eða í samkeppni við stærri fjármálafyrirtæki. Þar hafa þeir vissulega haft samkeppnisforskot, og stóra spurningin sem við stöndum frammi fyrir í dag er: Dugar það samkeppnisforskot til að tryggja starfsemi þeirra og starfsgrundvöll til lengri tíma litið? Sporin hræða í því efni. Kjarnastarfsemi flestra sparisjóðanna var rekin með tapi um margra ára skeið fyrir bankahrun. Rekstrinum var haldið uppi með þóknanatekjum og stöðutöku á fjármálamarkaði. Þannig var starfsemi flestra sparisjóðanna í raun meira í líkingu við starfsemi vogunarsjóða en innlánsstofnana. Kostnaðarhlutfall sparisjóðanna var mun hærra en sambærilegar stærðir hjá viðskiptabönkunum fyrir hrun. Sem dæmi má nefna að í ákveðnu tilviki dugði afkoma kjarnastarfsemi ekki fyrir stjórnarlaunum. Í mörgum tilvikum var kostnaðarhlutfallið yfir 100%.

Allar þessar staðreyndir þarf að hafa í huga þegar við horfum til framtíðarrekstrargrundvallar fyrir sparisjóði í dag. Það er mikilvægt að tryggja nauðsynlegt aðgengi að heilbrigðri fjármálaþjónustu fyrir heimili og fyrirtæki, jafnt í þéttbýli sem í dreifðum byggðum landsins, en það er í sjálfu sér ekkert sérstakt sparisjóðaverkefni heldur spurning um þjónustustig í landinu og hvaða viðhorf við höfum til uppbyggingar fjármálakerfisins eftir hrun. Við viljum almennt að fjármálakerfið eftir hrun sé byggt upp með þeim hætti að það sé í samræmi við þarfir atvinnulífs og almennings en ekki byggt upp þannig að það þjóni sjálfu sér fyrst og fremst.

Í endurmati á umgjörð fjármálakerfisins horfum við núna til þess hvernig við getum hvatað þessa þróun þannig að við stöndum eftir með fjármálakerfi sem verði í samræmi að stærð, umfangi og gerð við þarfir atvinnulífsins og heimilanna. Það er ólíklegt að endurreisn margra sparisjóða sé hagkvæmasta leiðin að þessu markmiði. Við verðum að horfa til þeirra efnislegu staðreynda sem ég nefndi áðan um veikari rekstrarforsendur margra sparisjóða fyrir hrun og við verðum líka að horfast í augu við það að breytingar núna í kjölfar hruns hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir rekstur fjármálafyrirtækja og erfitt rekstrarumhverfi fyrir smá fjármálafyrirtæki. Á þetta þurfum við allt að horfa með opin augu.

Bankasýslan vinnur nú að úttekt á rekstrarforsendum sparisjóðakerfisins. Sú athugun sem búist er við að verði kynnt í aprílmánuði mun leiða í ljós hverjar slíkar forsendur eru. Fyrir mér er það grundvallaratriði að ríkið þurfi ekki að leggja sparisjóðunum til meira fé og að ríkið geti losað um eignarhluti sína í sparisjóðunum þegar fram í sækir. Það er mikilvægt að við höfum fjármálakerfi sem er hagkvæmt og hæfilega stórt og eigi sér heilbrigðar rekstrarforsendur til lengri tíma litið. Sérstaðan sem sparisjóðirnir byggja á er engin sérstaða ef hún dugar ekki til að tryggja sparisjóðunum traustan og sjálfbæran rekstrargrundvöll til lengri tíma litið. Þá er verr af stað farið en heima setið.