139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[14:59]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Í síðustu viku kom ráðherra á fund viðskiptanefndar um endurreisn bankakerfisins og þar kom fram, að því er mér fannst, stefnuleysi um endurreisn bankakerfisins. Mér fannst eins og að núna, tveimur og hálfu ári eftir hrun, væri endurreisn bankakerfisins eiginlega á einhverju hugmyndastigi og menn ekki búnir að ákveða hvernig þeir ætluðu að hafa þetta.

Hvers vegna ættum við að vilja hafa sparisjóði? Sparisjóðirnir hafa oft verið nefndir hornsteinn í héraði. Þeir eru valkostur í viðskiptum, þeir þjóna frekar hinum dreifðari byggðum landsins og þeir eru innlánsstofnanir en ekki fjárfestingarbankar. Þannig var það. Þá er spurningin hvort það sparisjóðakerfi sem við búum þó enn við hafi þessi atriði að leiðarljósi. Það er spurning sem mér finnst að við verðum að svara áður en lengra er haldið. Er það stefna þeirra að hafa þessa sérstöðu áfram og vilja þeir starfa þannig? Mér finnst að fæstir þeirra hafi viljað það fyrir hrun og kannski var það þess vegna sem fór sem fór.

Þegar við erum að tala um endurreisn fjármálafyrirtækja finnst mér ekki hægt annað en að minna á þann fjáraustur sem hefur farið fram úr sjóðum ríkisins í fjármálafyrirtæki sem hafa þurft aukið fé. Þetta hefur verið gert í krafti neyðarlaganna. Ég vil minna á að í þeim var endurskoðunarákvæði, þau átti að endurskoða en það hefur ekki verið gert og fresturinn til þess er löngu liðinn.