139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

framtíð sparisjóðanna.

[15:04]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það væri kannski ágætt að gera þá kröfu til hv. þingmanna að þeir gleymdu ekki hvaða ríkisstjórn þeir hafa stutt í gegnum tíðina þegar þeir labba upp í ræðustólinn.

Hvað um það, sparisjóðir gegndu mikilvægu hlutverki þegar þeir voru erindi sínu trúir og ræktu skyldur sínar við heimabyggð. Á liðnum áratug urðu þeir, eins og hæstv. ráðherra tók fram, með lagabreytingu sem átti sér stað á 9. áratug síðustu aldar, eins og fleiri fjármálastofnanir, því miður, græðginni að bráð með ömurlegum afleiðingum fyrir viðskiptavini og stofnfjáreigendur. Það er því tómt mál að tala um að endurreisa það sem var, endurreisa þessar föllnu bankastofnanir eins og ekkert hafi í skorist. Verkefnið er að takmarka skaðann af falli þeirra eins og annarra fjármálastofnana og koma því þannig fyrir að kostnaður almennings af því verði sem minnstur.

Það er svo annað mál, frú forseti, hvort stofna þurfi fjármálastofnanir af þessari tegund sem gegni þessu hlutverki og sinni því með sóma. Þá held ég að það verði að vera nýjar fjármálastofnanir sem byggi þá í raun og veru á þeirri hugsjón sem sparisjóðakerfið átti að byggja á. Í því get ég tekið undir með flestum þeim sem talað hafa í þessari umræðu. Þar hlýtur fjölbreytnin að vera lykilatriði, það er alveg rétt, það verður að vera fjölbreytt og það verður líka að vera hagkvæmt og arðbært. Við hljótum öll að gera þær kröfur.

En það veit ég, frú forseti, að Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, í hverjum ég fékk mína fyrstu bankabók árið 1966, á fyrsta ári, var ekki sama stofnunin og fór á höfuðið og ég var viðskiptavinur hjá árið 2009 og endaði í svokölluðum Arion banka. Það höfðu orðið grundvallarbreytingar á þeim litla sparisjóði.