139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:28]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það er nú svo að meginverkefni íslensku samninganefndarinnar er að gæta hagsmuna Íslands eins og gefur að skilja þannig að sanngirni sé gætt í þeim skuldbindingum sem Íslendingar þurfa að taka á sig. Í því skyni hefur Ísland gert sérstakt samkomulag við Evrópusambandið um að Ísland taki á sig sameiginlegt markmið með ESB í væntanlegu framtíðarsamkomulagi í ljósi þess að Ísland hefur nú þegar tekið inn hluta af regluverki Evrópusambandsins í loftslagsmálum í gegnum EES-samninginn. Að gefnu tilefni er rétt að taka fram að það hefur ekkert með afstöðu til aðildar til Evrópusambandsins að gera.

Þetta tryggir hagsmuni Íslands í framtíðinni þannig að stjórnvöld og fyrirtæki búi ekki við tvöfalt regluverk heldur búi við sama regluverk og þjóðir Evrópu og þar með þurfum við ekki, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, á undanþágum eða sérlausnum að halda í alþjóðlegu samkomulagi eftir 2012 þar sem stóriðjan mun gangast undir þetta viðskiptakerfi 2012 og flugið eftir 2013. Sú vinna hefur farið fram í góðu samkomulagi við atvinnulífið og hagsmunaaðila, enda mjög mikilvægir og stórir hagsmunir þarna undir. Með því að tryggja að Ísland og íslensk fyrirtæki vinni innan þessa ramma EES-samningsins og verði innan samevrópska markmiðsins gagnvart loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna er einfaldlega ekki þörf á að sækjast eftir undanþágum eða sérákvæðum en með þessari lausn eru íslenskir hagsmunir vel tryggðir bæði efnahagslegir og aðrir.

Eins og kom fram í framsögu minni eru kannski mikilvægustu árangurspunktarnir sem Ísland hefur náð inn í þá texta sem verið er að vinna með núna varðandi það að endurheimt votlendis sé viðurkennd loftslagsaðgerð. Jafnframt höfum við haldið mjög kirfilega á kynjasjónarmiðunum í samvinnu við ýmsar aðrar þjóðir og lítur út fyrir að sá hluti textans komi til með að eiga greiðan aðgang alla leið.