139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra fyrir þetta svar. Ég velti fyrir mér í framhaldi af svarinu hvort það hafi haft einhver áhrif eða hvort því hafi af Íslands hálfu verið haldið fram eða með einhverjum hætti tryggt að Ísland nyti þeirrar sérstöðu sem það óneitanlega hefur þegar kemur að orkuframleiðslu. En eins og hæstv. ráðherra nefndi í inngangsræðu sinni höfum við ákveðna sérstöðu í því hversu stór hluti þeirrar orku sem framleiddur er í landinu verður til með til þess að gera vistvænum hætti miðað við það sem þekkist í nágrannalöndunum, þar á meðal víðast hvar í Evrópu. Ég velti fyrir mér hvort Ísland eða íslenskir hagsmunir njóti þess með einhverjum hætti miðað við þær niðurstöður sem stefnir í að liggi fyrir. (Gripið fram í: Segðu bara undanþágur.) Við getum kallað eitthvað svona undanþágur en við greinum okkur frá nágrannalöndunum í verulegum mæli að þessu leyti, þ.e. að hér er orka framleidd með miklu vistvænni hætti en gerist annars staðar. Ég velti fyrir mér hvort við njótum meiri skilnings með því t.d. þegar horft er til útblásturs á samgöngusviðinu eða í sjávarútvegi eða einhverjum slíkum sviðum, þegar horft er til þess að við orkuframleiðslu hér á landi verður til miklu minna af gróðurhúsalofttegundum og gróðurhúsaáhrifum en gerist í nágrannalöndunum sem við berum okkur saman við.