139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:32]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Eins og kom fram í inngangsræðu minni er það svo að við deilum þessum markmiðum með Evrópusambandinu, gerum ráð fyrir því að draga saman um 20% frá 1990 til 2020. Ef lagalega bindandi samkomulag næst gerum við ráð fyrir því að þessi tala geti orðið allt að 30% og þá er auðvitað miðað við heildina.

Okkar helstu sóknarfæri samkvæmt þeirri skýrslu sem ég vék að áðan eru í samgöngum og svo í fiskiskipaflotanum eins og hér hefur komið fram. Það er nú bara svo að þótt við búum við loftslagsvæna orkukosti í sumum geirum samfélagsins erum við nálægt heimsmeti í subbuskap í öðrum, eins og til að mynda í samgöngum þar sem við erum miklir einkabílistar og losum mikið tiltölulega á mann af gróðurhúsalofttegundum í samgöngum. Það er auðvitað þáttur sem er mikilvægt að skoða út af fyrir sig og er mikilvægt þegar verið er að greina sóknarfæri eða möguleika hverrar þjóðar fyrir sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda að skoða hvern geira fyrir sig, að maður vinni sér ekki inn fyrir subbuskap í samgöngum með því að nota vatnsafl við raforkuframleiðslu. Þetta þarf allt að skoðast í hverjum geira fyrir sig.

Það er náttúrlega okkar sérstaða fyrst og fremst en eins og ég gat um áðan erum við með sameiginlegt markmið og við viljum auðvitað skipa okkur í sveit fremstu ríkja í heiminum í því að axla ábyrgð af fullum metnaði og að horfast í augu við það að þróuðustu ríki heims verða að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.