139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:36]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Það sem er á dagskrá hér er jú aðgerðaáætlun í loftslagsmálum með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Um það fjallar skýrslan og það er grunntónninn og sú umræða sem við erum að fara í gegnum hér, þ.e. tækifæri Íslands til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Við getum auðvitað rætt um það sem vel er gert og höfum nú iðulega gert það, Íslendingar, og ekkert vikið okkur undan því að berja okkur á brjóst yfir því sem vel er gert, sumt með fullri innstæðu en annað síður. Við erum auðvitað til fyrirmyndar í ýmsum geirum og við erum til fyrirmyndar í því að vera vakandi fyrir því að nýta okkar góðu orkukosti. Hins vegar höfum við ekkert endilega verið til fyrirmyndar í því að umgangast þá með sjálfbærum hætti. Við þurfum að hugsa um hvernig best er að umgangast orkukosti með sjálfbærum hætti því það snýst um bæði náttúru, samfélag og efnahag. Þannig að töluverðar kröfur eru settar okkur á herðar ef við ætlum að gera það svo einhver bragur sé á.

Þingmaðurinn spyr um framlag okkar. Mikilvægasta framlag okkar í loftslagsumræðunum og samningaviðræðunum er kannski í raun og veru áherslan á að endurheimt votlendis sé viðurkennd loftslagsaðgerð. Þar er ekki bara um að ræða gríðarlega stórt tækifæri til að draga úr losun heldur ekki síður náttúruverndaraðgerð. Þetta er því aðgerð sem hefur tvær jákvæðar hliðar. Þetta er tvöfaldur ávinningur, ef svo má segja. Hingað til hafa skógrækt og landgræðsla verið viðurkenndar loftslagsaðgerðir en fyrir tilverknað Íslands í loftslagsviðræðunum hefur endurheimt votlendis verið lögð til sem raunveruleg aðgerð. Ég held að eftir á að hyggja verði það kannski eitt mikilvægasta framlag okkar til þeirrar umræðu.