139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[15:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er akkúrat hárrétt hjá hæstv. ráðherra, markmiðið með umræðunni allri hlýtur að vera að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þá erum við væntanlega að hugsa um heiminn allan. Heimurinn er allur undir, þess vegna ræðum við þetta í alþjóðlegu samhengi og þess vegna göngumst við undir alþjóðlega samninga og skuldbindingar, ásamt öðrum ríkjum. Við viljum hafa tækifæri til að bæta loftslagið og þá er mikilvægt að svara spurningunni um hvert sé framlag okkar Íslendinga. Er framlag okkar Íslendinga ekki einmitt að við framleiðum ákveðna hluti í hnattrænu samhengi? Við framleiðum ál. Við framleiðum kísil. Við framleiðum aflþynnur og hitt og þetta. Er ekki framlag okkar til umhverfismálanna að leggja til framleiðslu á þessum hlutum hér á landi með orku sem losar ekki nema brotabrot af því sem gerir annars staðar? Er það ekki framlag okkar til alþjóðlegra skuldbindinga og alþjóðlegra samninga ef við horfum á þetta allt saman hnattrænt? Verðum við ekki að gera það þannig? Þetta er spurning sem brennur á mér vegna þess að mér finnst þessi umræða vera mjög lókalíseruð, ef ég má sletta aðeins, þrátt fyrir það að hún snúist öll um alþjóðlegar skuldbindingar.

Síðan vil ég, vegna orða hæstv. umhverfisráðherra, spyrja hana um hvaða orkukosti hér á landi við séum ekki að nýta með sjálfbærum hætti. Hæstv. umhverfisráðherra sagði það beint út. Ég verð að viðurkenna að ég hrökk aðeins við vegna þess að ég tel og taldi að orkunýting okkar í þessu samhengi væri einmitt með sjálfbærum hætti, hvort sem við erum að tala um vatnsafl eða jarðhita. Færustu sérfræðingar okkar vinna í þessum málum, einmitt með það að markmiði að nýta orkuna með sjálfbærum hætti.