139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:04]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður getur spurt hér eins oft og hann vill. Ég svara þessu með nákvæmlega sama hætti og ég gerði áðan. Við sjálfstæðismenn erum ekki andvígir því, einfalt mál. Við höfum sett fram oftar en einu sinni og oftar en tvisvar athugasemdir okkar um með hvaða hætti haldið hefur verið á hagsmunum Íslands í þessum efnum. Það vil ég undirstrika.

Við höfum deilt um leiðir að þessu. Ég tók eftir því hér áðan t.d. að þegar hv. þm. Birgir Ármannsson var í andsvari við umhverfisráðherra og var að tala um möguleg frávik frá þessari stefnumörkun fóru menn að skjótast hér á um hvort við ætluðum að sækja um undanþágur o.s.frv. Við höfum deilt um það. Við höfum deilt um þetta sérstaka íslenska ákvæði. Það eru skiptar skoðanir um það. Við höfum verið talsmenn þess að ná því fram og þótt menn sem hafa verið í forsvari fyrir Ísland á þessum vettvangi ekki standa nægilega mikinn vörð um þá hagsmuni sem við höfum barist fyrir, að við nytum þessarar sérstöðu. Ég er þess fyllilega meðvitaður að hv. þm. Mörður Árnason deilir ekki þeirri skoðun með mér. Ég er ekkert að krefja hann um að hann sé sammála þessum áherslum okkar sjálfstæðismanna, en ég bið hann engu að síður að virða þær.