139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:08]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég er ekki þeirrar skoðunar að sú aðgerðaáætlun sem hér er lögð fram sé endilega tengd aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu. Ég held að það þurfi ekki að vera beint samasemmerki á milli þessara tveggja meginmála, langur vegur frá. Ég held að þetta sé einfaldlega liður í því að við stöndum við þær skuldbindingar okkar sem við höfum m.a. undirgengist í EES-samningnum. Þetta leiðir fyrst og fremst af því. Úr því að hv. þingmaður nefndi það áðan að makríllinn sigldi inn í landhelgina bendi ég hv. þingmanni á að hann syndir hingað inn. Hins vegar krefur það dæmi okkur um að semja við m.a. Evrópusambandið um það með hvaða hætti við ætlum að nýta þann stofn sem syndir inn í lögsögu okkar og við eigum möguleika á að nýta.

Það sem hefur komið fram í umræðunni um þessi loftslagsmál, umhverfismálin almennt, hefur oft og tíðum verið nýtt með þeim hætti að vitna til alþjóðlegra skuldbindinga, m.a. á sviði loftslagsmála, til að standa í vegi framkvæmda. Það þykir mér miður og við höfum iðulega upplifað það að í stjórnsýslunni hafa verið byggðar upp hindranir til að standa gegn tilteknum verkum með vísan til ákvæða sem okkur er ætlað að standa undir, m.a. á sviði loftslagsmála, án þess að fyrir liggi með hvaða hætti nákvæmlega þeir samningar kunna að verða. Það er enn fremur mjög miður að þeir liggi ekki fyrir.