139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:12]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég ætla að byrja á blessuðum makrílnum. Það verður seint sagt um þann hæstv. ráðherra Jón Bjarnason að hann hafi beinlínis verið á hnjánum (VigH: Nei, …) í makrílstríðinu, hann stóð sína plikt ágætlega í þeim efnum, en það er ágætt að nýta makrílinn sem dæmi um það að hagur okkar kunni líka að liggja í því að semja okkur niður til lausnar. Í þeim efnum bendi ég á það varðandi makrílinn að hann gengur ekki inn í lögsögu landsins á hverju einasta ári. Í veiðileysisárum, þegar hann syndir ekki hingað inn í landhelgina, eigum við kannski veiðirétt í lögsögu annarra ríkja. Það er kosturinn við að semja um þessa svokölluðu deilistofna. Ég skal ekkert segja til um það hvernig viðskiptakerfi með þessar heimildir kann að ganga.

Ég bið hv. þingmann afsökunar á því að ég átti frumkvæðið að þeim samræðum sem voru hér úti í sal áðan, við hv. formaður umhverfisnefndar vorum að ræða það að þessi viðskipti væru á leið inn til nefndarinnar og þar verður einfaldlega farið í gegnum þennan pakka allan saman og væntanlega rætt við fulltrúa þeirra fyrirtækja sem þessum málum tengjast. En ég skal verða fyrstur manna til að viðurkenna að ég hef hvorki mikla né djúpa þekkingu á þessu viðskiptadæmi með loftslagsheimildirnar.