139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:14]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég ætla að ræða um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en ekki um makríl eða aðra hluti þó að þeir séu kannski nátengdir þessu í gegnum hið blessaða Evrópusamband sem mörgum verður tíðrætt um hér. Ég verð þó að segja það um stóriðjuákvæðið, sem sumir kalla íslenska ákvæðið og er enn í gildi og verður út þetta ár og næsta, að um það er eiginlega ekkert að tala lengur. Við erum á leiðinni með losunarkvótana í stóriðjunni inn í púkk með Evrópusambandinu sem ég held að flestir telji ráðlegt. Þegar við erum komin inn í það púkk er íslenska ákvæðið einfaldlega ekki á borðinu lengur. Það getur vel verið að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir vilji hafa það þannig að við séum áfram að berjast fyrir einhvers konar íslensku ákvæði og tökum ekki þátt í samstarfi Evrópuþjóða um þetta en þá er hún meðal annars ósammála forráðamönnum álfyrirtækjanna á Íslandi og bakhjörlum þeirra erlendis vegna þess að þeir kjósa einmitt þessa skipun og telja hana betri.

Ég er líka sömu skoðunar og forráðamenn álfyrirtækjanna og stóriðjufyrirtækjanna, hef þó kannski þann fyrirvara að ég held að við kunnum hugsanlega að missa ákveðinn part af ábyrgð okkar á þessu máli vegna þess að eftir að þetta tekur gildi erum það ekki við sem þurfum að véla um losunarkvóta stóriðjufyrirtækjanna á Íslandi heldur er það Evrópusambandið og bandalagsríki þess í heild. Þannig berum við ábyrgð á því sem Evrópumenn, miklu fremur en sem Íslendingar. Þetta er pólitískt kannski ekki alveg nógu gott, en þetta er þó það sem menn hafa fundið út. Vigdís Hauksdóttir verður þá að ræða við álfurstana frægu um þetta mál og kannski gera það áður en hún fer að skamma okkur fyrir það — þó að stjórnmálamenn hafi að sjálfsögðu tekið þessa ákvörðun, nefnilega stjórnmálamaðurinn Svandís Svavarsdóttir sem tók hana, að ég held, í fyrrasumar — ja, málið alla vega gekk upp af hennar hálfu í desember 2009.

Hitt er auðvitað sérkennilegt sem kom fram í andsvörunum áðan að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þeir sem nú sitja á þingi, hafa ekki tekið afstöðu til þeirra markmiða sem ríkisstjórnir Íslands hafa sett sér um samdrátt í losun, annars vegar þess markmiðs sem Svandís Svavarsdóttir, hæstv. umhverfisráðherra, stóð fyrir í samráði við ráðherra í ráðuneyti Jóhönnu Sigurðardóttur um að standa með Evrópusambandinu í 30% losunarmarkmiði þess. Hins vegar virðist Sjálfstæðisflokkurinn hafa misst sjónar á því markmiði sem lýst var yfir í febrúar 2007 á blaðamannafundi þar sem sátu Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra og Geir Hilmar Haarde, þá forsætisráðherra, og var um 50–75% samdrátt fyrir árið 2050. Það er leitt að Sjálfstæðisflokkurinn skuli hafa misst samhengið í sinni sögu með þessum hætti þó að vel sé skiljanlegt, og við virðum honum það til vorkunnar, að hann sé ekki mjög sögulega þenkjandi um þessar mundir, eftir áfallið mikla haustið 2008.

Ég ætlaði, forseti, að ræða um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum og byrja á að segja að það er gott að við ræðum þetta hér á þinginu. Við hefðum kannski átt að hafa til þess lengri tíma og meira næði. Það hefur verið alllöng bið eftir einmitt þessari aðgerðaáætlun. Hún var samþykkt í ríkisstjórn 5. nóvember í fyrra, þannig að það er liðinn hálfur sjötti mánuður, en ég geri ekki ráð fyrir að það sé hæstv. umhverfisráðherra að kenna. Nefndin var skipuð í júlí 2009 og kynnti sín drög. Vann nú fljótt og vel og skilaði í desember 2009. Sagan er auðvitað lengri því að hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir undirbjó þetta starf og hóf það með tveimur rannsóknarnefndum um vísindamál og um aðgerðir þegar hún var umhverfisráðherra. Tveir umhverfisráðherrar hafa því lagt saman í þetta efni og það er gott.

Það er þó þannig að við erum hér að tala um skýrslu sem er nánast orðin hálfs árs gömul og kannski lýsir það þeim samdrætti í áhuga sem orðið hefur í þessu máli, eins mikilvægt og það er, hin síðustu missiri. Kreppan í iðnríkjunum og hrunið hér hefur auðvitað dregið úr áhuga og framkvæmdum í þessum efnum. Skemmst er að minnast þess, af því að hér sitja tveir í salnum sem líka voru staddir í Kaupmannahöfn í árslok 2009, á loftslagsráðstefnunni þar, að það voru mikil vonbrigði og dró úr bæði ráðamönnum og þeirri miklu hreyfingu sem þá hafði skapast um allan heim. Það er auðvitað hægt að fara hér með klisjur um að einmitt vegna þessa séum við sofandi, við fljótum sofandi að þessum feigðarósi, og það þykja miklar svartagallsspár. En því miður er það svo að allar fréttir staðfesta að kenningar í þessum efnum séu réttar. Allar fréttir segja að þær villukenningar sem menn höfðu uppi fyrir nokkrum árum, um að þetta væri kommúnismi og einhvers konar hjáfræði, séu rangar. Þróunin er hraðari en gert er ráð fyrir í þeim hóflegu niðurstöðum vísindamanna sem saman eru komnar í skýrsluniðurstöðum ICCP sem við eigum alltaf að muna að eru lesnar yfir pólitískt þannig að þær lýsa ekki bara árangri vísindamanna heldur líka úrdrætti helstu pólitíkusa.

Ég ætla ekki að fara í þetta svartagallsraus en menn verða bara að vita að þetta er ekki ein heimsendaspáin í viðbót. Þetta er ekki 2000-vandamálið eða Opinberunarbókin eða hættuleg halastjarna. Þetta er heldur ekki heimsendahugmynd af því tagi sem kom upp á síðustu öld af fullkomlega raunverulegum ástæðum, þ.e. þegar menn óttuðust ógnir kjarnorkustyrjaldar. Þar skipti máli að stórveldin notuðu ekki þau vopn sem fyrir hendi væru, að þau gerðu ekkert, það var eiginlega boðorð dagsins. Ekki gera neitt nema skera niður vopnin. Hér er það svo sannarlega ekki þannig, þau eiga að gera eitthvað. Við verðum að framkvæma. Við verðum að aðhafast ef við eigum að standa okkar plikt við það að forðast þá framtíð sem nú er spáð. Það er engum öðrum til að dreifa. Það erum við sem lifum á jörðinni, það erum við sem nú erum í forustu í stjórnmálum, viðskiptum, fræðum og félagsmálum hér á Íslandi og alls staðar annars staðar, sem verðum að aðhafast, það erum við sem aldrei fáum fyrirgefningu ef við látum þessi tækifæri ónýtt, vegna þess að þau koma aldrei aftur.

Þingmálið sjálft er líka orðið gamalt. Kannski lýsir það bara metnaðarleysi af okkar hálfu. Þegar áætlunin kemur til okkar, hversu mjög sem má hrósa henni, er hún líka orðin gömul. Í henni eru t.d. boðuð frumvörp sem þegar eru komin fram. Vörugjald á bíla er rætt hér í áætluninni. Í inngangi ráðherrans, sem greinilega er saminn töluvert áður en áætlunin er lögð fram, er talað um loftslagsráðstefnuna í Mexíkó í desember og hefur greinilega verið samið áður en íslenska sendinefndin var send til Kankún nú fyrir jólin.

Íslenskar athafnir skipta auðvitað máli. Þar verður að rifja það upp, sem hæstv. umhverfisráðherra fór í gegnum, að losun hefur aukist frá viðmiðunarárinu um 32% þegar reiknað er með kolefnisbindingu, um 43% án bindingar, við erum að tala um frá 1990 þannig að þetta er enn meiri aukning en hún hljómar í þessum tölum. Á mann erum við með mestu losunarsóðum í heimi, að vísu skánar það ef við tökum stóriðjuna út. Það er auðvitað þannig, eins og við höfum rætt, að verkefni okkar með þessari aðgerðaáætlun er þá losunin án stóriðju. Það er þar sem við þurfum að bera niður.

Því miður gefst ekki mikill tími til að ræða aðgerðaáætlunina sjálfa. Þetta eru 10 meginverkefni og fjölmörg minni verkefni. Mér sýnist að þetta sé þokkalega valið. Helmingurinn er á sviði samgangna og sjávarútvegs þar sem helstu færin liggja í þessum efnum, þar á meðal í samgöngumálum, alveg öfugt við það sem sagt var hér fyrr í umræðunni, ekki síst í minnkun losunar frá bílaflotanum, vegna þess að bílaflotinn er alltaf að endurnýjast og þar eru tækifæri til að ná árangri í losunarmálum og í umhverfismálum á tíma sem maður annars ekki þekkir í þessum efnum vegna þess að bæði losunarsamdráttur og almennar umhverfisbætur ganga hægt. Þær miðast ekki við kjörtímabil heldur frekar við áfanga í mannsævinni og einmitt í bílaflotanum og í samgöngumálunum eru mikil tækifæri.

Af þessum einstöku aðgerðum vil ég sérstaklega fagna kaflanum um endurheimt votlendis en lýsa um leið vonbrigðum mínum með það metnaðarleysi sem þar kemur fram, að lítið sé hægt að gera í þessu fyrir 2020 og ekki mikið hægt að gera í þessu nema á einhverjum sérstökum svæðum. Ég held að þessi aðgerð, endurheimt votlendis, geri tvennt í senn. Annars vegar hjálpar hún okkur til að standa við losunarkvótana og sýna fram á raunverulega kolefnisbindingu. Við vitum að töluvert er deilt um útreikning kolefnisbindinga af landgræðslu og skógrækt, en þarna er hún fullkomlega raunveruleg. Hins vegar hjálpar hún okkur til að endurheimta landið eins og það var og bæta fyrir slys sem fyrri kynslóðir, kannski að einhverju leyti okkar, hafa orðið sekar um af framfarahug sem reyndist því miður heldur skammsýnn.

Annað sem ég vil hér minnast á — nú er orðið lítið eftir af tíma mínum, forseti — er kolefnisgjaldið. Það er eitt af því sem bættist við af markmiðum frá upphaflegum drögum. Það er að einhverju leyti komið á, við höfum þegar stigið fyrstu skrefin í því efni. Þetta er ákaflega mikilvægt. Hinn mikli páfi í þessum fræðum Al Gore, gamli varaforseti sem hingað kom sællar minningar, hefur einmitt talað um þetta. Við eigum að setja verð á kolefni. Helsta ráðið sem við höfum til að fá raunverulegar umbætur í þessu er að koma verði á kolefnið — put a price on carbon, segir hann á sínu tungumáli — þ.e. raunverulegur kostnaður fyrir mannkynið allt af kolefnisneyslunni verði viðurkenndur í hagkerfum einstakra ríkja og í hagkerfi heimsins sem slíku. Við erum að stíga hér fyrstu skrefin. Það er ekki heppilegt að þau séu stigin á tímum kreppu og fjárskorts, en það eru þeir tímar sem við lifum. Og við eigum að stíga fleiri skref og miklu hraðar í þessu.

Ég vil á þeim stutta sem ég á eftir spyrja hæstv. umhverfisráðherra og kvarta um leið yfir því að mér finnast kaflarnir um stjórnun og eftirfylgni með þeim aðgerðum sem hér eru nefndar, þessum 10 og aukaaðgerðunum líka, vera heldur slakir. Í áætluninni sjálfri er talað um að stofna mætti sérstaka samráðsnefnd til að sjá um eftirfylgni aðgerðaáætlunar eða að víkka út starfssvið samninganefndarinnar um loftslagsmál.

Ég spyr: Hefur þetta verið gert eða stendur þetta til? Eða ættum við að fá einhvern svona — hvað kalla þeir þetta í Ameríku? — svona tsar, loftslags-tsar — eða a.m.k. einhverja þá nefnd sem getur verið burðugur leiðtogi í þessum efnum? Í innganginum sem er saminn seinna en áætlunin stendur aðeins að áætluninni verði fylgt eftir og hún endurskoðuð reglulega, m.a. með tilliti til gangs mála í alþjóðlegum loftslagsviðræðum og innleiðingum tilskipana Evrópusambandsins í loftslagsmálum í gegnum EES-samningana. — Ég þakka fyrir þessa ágætu tilvísun í blessað Evrópusambandið. En ég spyr líka: Hvað þýðir þetta? Hvað merkir þetta? Hver á að fylgjast með þessu og hvernig á þetta að gerast? Ég er dauðhræddur um að það plagg sem hér hefur legið fyrir í hálft ár og hér í þinginu í nokkra mánuði í viðbót haldi áfram að liggja ef ekki verður settur kraftur, slagkraftur, og fólk af holdi og blóði í það að fylgja þessu eftir og hafi í hjarta sínu og í líkamanum næga sannfæringu og nægan sannfæringarkraft til þess að bæði forustumenn í atvinnulífi og stjórnsýslu og allur almenningur fylgist með í þessari aðgerðaáætlun, sem er það mikilvægasta sem við getum að sinni gert til að bregðast við vá sem snertir okkur sjálf ekki nema að litlu leyti, en snertir það sem okkur finnst dýrmætast í lífinu, börnin okkar og eftirkomendur alla.