139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[16:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Skýrslan sem liggur fyrir gefur tilefni til að fara vítt og breitt í umræðu um loftslagsmál, bæði hvað varðar loftslagsmál á heimsvísu, alþjóðlega samninga á því sviði o.fl., og eins einstök atriði í þeirri aðgerðaáætlun sem hér er kynnt fyrir þinginu. Á þeim stutta tíma sem við höfum til þessarar umræðu ætla ég að láta nægja að svo stöddu að ræða eitt tiltekið sjónarhorn eða eitt tiltekið atriði sem varðar þennan málaflokk og aðkomu þingsins að honum.

Í ræðu hv. formanns umhverfisnefndar Alþingis var m.a. nefnt að skýrslan sem liggur fyrir hafi legið fyrir um allnokkurt skeið áður en hún kom til Alþingis. Ég tek undir orð hans um að það sé áreiðanlega ekki við hæstv. umhverfisráðherra að sakast í þeim efnum og snerti frekar hvernig við skipuleggjum störf okkar á þingi og þarf ekkert að ræða það frekar. En skýrsla sem útlistar aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki hefur sem sagt lengi legið fyrir. Það leiðir hugann að þeirri grundvallarspurningu um hver aðkoma Alþingis eigi að vera að stefnumörkun í þessum málum.

Eins og málið liggur fyrir er lögð fram skýrsla um aðgerðaáætlun sem ákveðin er af ríkisstjórninni á grundvelli sérfræðingaskýrslu og niðurstöðu sérfræðinganefndar sem sett var á fót sumarið 2009. Alþingi fær þá skýrslu nú til nokkurs konar kynningar, aðgerðaáætlun til kynningar. Málið fer hins vegar ekki í neina þinglega meðferð, málið fær þessa umræðu og svo er umfjöllun lokið. Málið fær ekki meðferð í nefnd og endar ekki með ályktun Alþingis eða einhverri slíkri afgreiðslu. Hér er í raun og veru aðeins um kynningu af hálfu ráðherra að ræða og síðan umræður sem eftir atvikum verða mjög takmarkaðar vegna þess forms sem þeirri umræðu er valið. Þetta er umhugsunarefni burt séð frá hvaða skoðun við kunnum að hafa á einstökum þáttum málsins, bæði í hinu alþjóðlega samhengi og eins í þeim einstöku efnisatriðum sem aðgerðaáætlunin kveður á um, því að þetta eru mjög mikilvæg viðfangsefni. Þau eru mikilvæg og geta varðað miklu.

Ef við horfum bara á það sem að okkur snýr felst stefnumörkun í aðgerðaáætluninni á sviðum sem hafa eða geta haft veruleg áhrif innan lands, en eins og ég sagði sleppi ég alheimssamhenginu sem er yfir og allt um kring í þessari umræðu. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé fullnægjandi, hvort okkur þyki slík aðkoma Alþingis að stefnumörkun á þessu sviði fullnægjandi. Ég velti fyrir mér hvort nálgunin ætti ekki frekar að vera með þeim hætti að aðgerðaáætlun væri samin eftir ítarlega stefnumörkun af hálfu Alþingis, umfjöllun í þingnefnd og síðan afgreidd í þinginu frekar en að hún sé einhliða mál ríkisstjórnarinnar eins og mér finnst hún vera og fannst í tíð fyrri ríkisstjórnar, svo að því sé haldið til haga, sem minn flokkur átti aðild að.

Ég nefni þetta ekki að ástæðulausu vegna þess að þrátt fyrir að einstakar ákvarðanir sem aðgerðaáætlunin snýst um komi síðar til Alþingis í formi lagafrumvarpa eða með öðrum hætti er um almenna stefnumörkun að ræða sem stjórnvöld munu væntanlega telja sig nokkuð bundin af við útfærslu frekari stefnumörkunar. Hvernig svo sem á því stendur og hversu langt aftur er hægt að rekja þá sögu verkferla og vinnubragða í þessu sambandi þá finnst mér þetta öfugsnúið. Stefnumörkunin sem slík ætti að vera á vettvangi þingsins í miklu ríkari mæli en hefur verið á þessu sviði. Ég er ekki að gagnrýna hæstv. núverandi umhverfisráðherra í þessu sambandi. Þetta er atriði sem ástæða hefur verið til að endurskoða í langan tíma.

Hæstv. forseti. Þrátt fyrir að um mörg þau atriði sem kveðið er á um í aðgerðaáætluninni geti verið allgóð pólitísk samstaða þá kunna að vera skiptar skoðanir um aðra þætti í því sambandi. Mér finnst einfaldlega réttari háttur að þingið taki afstöðu til þeirra þátta fyrir fram þegar stefnan er mörkuð í upphafi frekar en stefnumörkunin sé ákveðin af framkvæmdarvaldinu og þingið standi svo frammi fyrir orðnum hlut eða niðurstöðu sem búið er að negla niður í stefnumörkun, plöggum á borð við þessa aðgerðaáætlun, hugsanlegum skuldbindingum eða fyrirheitum um skuldbindingar í samskiptum við aðrar þjóðir o.s.frv. Þessu vildi ég halda til haga í von um að það yrði endurhugsað.

Ég játa að ég hef ekki alveg mótað skoðun mína á því hvernig við breytum þessu, hvernig við snúum þessu aftur við en ég skora á hæstv. umhverfisráðherra að taka þau atriði sem ég nefni til skoðunar. Ég skora jafnframt á hv. samþingmenn mína, ekki síst þá sem sitja í hv. umhverfisnefnd, að velta þessum þætti fyrir sér líka. Ég tel raunar með fullri virðingu fyrir mörgum tæknilegum málum sem við fjöllum um í umhverfisnefnd að umræða um stefnumörkun á þessu sviði sé miklu mikilvægari. Það eigi frekar heima í nefnd eins og umhverfisnefnd að fjalla um slíka meiri háttar pólitíska stefnumörkun en öll þau tæknilegu atriði, jafnvel smáatriði, sem við verjum tímanum í á fundum umhverfisnefndar þó að þau séu vafalaust nauðsynleg líka.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að leggja þetta fram og jafnframt fyrir þau svör sem áður hafa komið. Ég er samt ekki viss um að við nálgumst málið að öllu leyti frá sama sjónarhóli en vandi minn í þessari umræðu er fólginn í að ég sé ekki sem þingmaður hvaða möguleika ég hef á því að hafa áhrif á þessa aðgerðaáætlun. Hvað get ég gert? Þessi aðgerðaáætlun eru núna fyrst að koma til mín sem alþingismanns. Ég get ekki komið með breytingartillögur. Ég get ekki komið með athugasemdir. Hugsanlega gætu gagnrýnissjónarmið af hálfu þingmanna haft einhver áhrif á hvernig einstök verkefni verða útfærð síðar ef þau mál koma fyrir þingið en samt sem áður er í rauninni búið að marka meginstefnuna án þess að þingið komi að. Það tel ég ekki réttu leiðina við stefnumörkun á svo mikilvægu sviði.