139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:04]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs um skýrslu hæstv. umhverfisráðherra, Svandísar Svavarsdóttur, um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Kannski er nær að segja að skýrslan eða áætlunin gæti heitið aðgerðaáætlun um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Því að það er ekki alveg hægt að skilja alla umræðuna þannig að þingmenn hafi almennt gert sér grein fyrir að áætlunin er um það hvernig við hyggjumst draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi án tillits til þess hvað verður gert annars staðar þó að það hafi auðvitað mikið að segja líka, ekki síst ef tekst að komast að bindandi samkomulagi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í Suður-Afríku í desember næstkomandi. En það er önnur saga.

Það sem vill stundum fá litla athygli í umræðu sem þessari, því miður — þó að það hafi að sjálfsögðu komið fram í máli hæstv. ráðherra hverjar eru ástæður þess að mannkyn glímir nú við mikinn loftslagsvanda og hlýnun í lofthjúpi jarðar — er losun gróðurhúsalofttegundanna, sem verður við iðnaðarframleiðslu og við losun frá vélum og tækjum, eins og bílum og skipum. Það á sínar sögulegu ástæður en er auðvitað afleiðing þess að iðnvæðing jarðarinnar fólst í því að nýta jarðefnaeldsneyti og það losar þessar umræddu lofttegundir sem síðan gera það að verkum að lofthjúpurinn hlýnar með afleiðingum sem einhverjum kynni að þykja að væru kannski svolítið góðar, sérstaklega ef maður býr við norðlæga breiddargráðu, en þannig er það ekki. Loftslagsbreytingar snúast um verulegar breytingar á náttúrufari og lífsskilyrðum, afleiðingar fyrir lífríki og mannkyn sem geta orðið illviðráðanlegar og mjög alvarlegar ef okkur tekst ekki, ríkjum heims og mannkyni, að komast að samkomulagi um eða gera öll það sem í okkar valdi stendur, hvert í sínu landi, að draga úr losuninni eða reyna alla vega að koma í veg fyrir að hér verði geigvænlegar loftslagsbreytingar, og ég segi verði af því að í raun má segja að þær séu að verða og þegar hafnar. Það má sjá í hækkun sjávarborðs, þurrkum, dauða kóralrifja, tilfærslu lífbelta og í möguleikum til ræktunar.

Afleiðingarnar snúast ekki bara um hlýnun eins og orðið gæti bent til heldur um lífsskilyrði á jörðinni. Lífsskilyrði á jörðinni varða okkur öll, ekki síst okkur sem kjósum að starfa á vettvangi stjórnmálanna og viljum framfylgja stefnu sem kennir sig við umhverfisvernd hvar í flokki sem við stöndum.

Ég átti samtal við prófessor Robert Corell um daginn sem staddur var hér á landi. Hann er einn þeirra sem skrifuðu mjög merka skýrslu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum, sem kom út árið 2004 og markaði nokkur tímamót í umræðunni um loftslagsbreytingar. Hann sagði að miðað við þær tölur sem hann hefði á sínu borði og miðað við þá töf sem orðið hefur á því að ríki heims komi sér upp bindandi samkomulagi um samdrátt í losun þá stefnum við þráðbeint í 4°C hlýnun, hæstv. forseti. Ég get því miður ekki sýnt það á töflu eða mynd sem teiknuð er upp í skýrslu Sameinuðu þjóðanna af því hvaða áhrif það mögulega getur haft að lofthjúpur jarðar hlýni um 4°C. Það eru geigvænlegar hamfaraafleiðingar sem af því hljótast með þvílíkum afleiðingum, ekki síst þar sem, eins og alltaf er í þessum heimi, varnirnar eru minnstar og þeir sem minnst hafa valdið verða fyrir. Ég á þá sérstaklega við íbúa á suðurhveli jarðar og íbúa í fátækustu ríkjum heims.

Mér fannst við hæfi, forseti, að nefna þetta aðeins í byrjun ræðu minnar vegna þess að við erum að tala um mjög praktískan hlut, aðgerðaáætlun um hvernig við ætlum að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi á næstum árum, á þessum áratug til 2020. En það er mikilvægt í þessu eins og öðru að við missum ekki sjónar af því hvers vegna við erum að gera þetta. Þetta er eins og oft hefur verið sagt eitt af — og er jafnvel mikilvægasta verkefni þessarar aldar.

Ég hyggst í sjálfu sér ekki fara ofan í hinar tilteknu aðgerðir að öðru leyti en því að í skýrslunni kemur fram, og það er lagt til í aðgerðaáætlun hæstv. ráðherra, að gripið sé til margvíslegra aðgerða. Þær eru valdar með tilliti til hagkvæmni og árangurs sem er skynsamleg og góð leið til að eiga við þennan vanda og til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eins og fram hefur komið byggja þessar tillögur á tveimur skýrslum eftir Brynhildi Davíðsdóttur og fleiri og á vísindaskýrslu eftir Halldór Björnsson. En ég vil samt taka undir með félaga mínum, hv. formanni umhverfisnefndar, að okkur er ekki alveg ljóst hvernig eftirfylgnin á að vera og hvernig við ætlum að mæla og fylgja því eftir hvernig þeim aðgerðum verður hrint í framkvæmd og hvernig við setjum niður reglubundna vöktun á því hvort þær skili árangri. Mér sýnist hins vegar vera um að ræða aðgerðir sem eigi að skila umtalsverðum árangri, annars væru þær náttúrlega ekki hér, þær eru fjölbreyttar og það er lykilatriði. Þær eru líka, ef ég má taka þannig til orða, góðar í sjálfu sér vegna þess að þær stuðla að ákveðnu starfi, ákveðnum rannsóknum, ákveðinni viðhorfsbreytingu sem er algerlega nauðsynleg ef við ætlum að ná þessum árangri. Þar er hægt að taka mjög nærtæk dæmi eins og eflingu göngu, hjólreiða og almenningssamgangna og annars slíks sem við höfum oft rætt um á hinu háa Alþingi og líka í sveitarstjórnum um allt land en kannski gert minna í. Það eru þó ekki síst verkefni hinnar rökrænu jafnaðarmannaríkisstjórnar að hrinda því í framkvæmd að koma á almenningssamgöngum sem fólk á auðvelt með að nota og hafa með sér öll þau góðu umhverfisáhrif og áhrif á heilsu fólks og loftgæði sem við þekkjum.

Nokkuð hefur verið rætt um Evrópusambandið og innleiðingu tilskipunar um viðskiptakerfi með losunarheimildir. Það er reyndar þannig að sú tilskipun gekk í gildi ef ég man rétt árið 2005 en hún dettur ekki inn hér á landi, eins og stundum er sagt, fyrr en með breytingum á losunarheimildum vegna flugsamgangna og síðan stóriðju árin 2012 og 2013. Í henni er ekkert sem ætti í raun að koma þingmönnum á óvart ef þeir hafa haft fyrir því að kynna sér málið en hins vegar verða áhrif hennar mjög mikil á komandi árum hér á landi. Ég tel mig vita að bæði forráðamenn flugfélaga og stóriðjufyrirtækja undirbúi sig undir það og þeir vita nákvæmlega á hverju þeir eiga von. Þeir vissu það fyrir nokkrum árum og ég tel víst að menn séu alveg á sama róli.

Nú er tími minn, hæstv. forseti, allt í einu á þrotum. Ég vil að lokum segja sem er, að ég held að þessi aðgerðaáætlun sé raunhæf og góð en það þarf auðvitað og er þá ekki síst hlutverk Alþingis að fylgja henni vel eftir og sjá til þess að við komum henni í verk.