139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:23]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég kem upp, í sögulegum tilgangi ef svo má að orði komast, til að rifja upp setu mína sem umhverfisráðherra í ríkisstjórn Geirs Haardes, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, en þar var tekin sú ákvörðun að reyna að koma í veg fyrir að við kæmum okkur upp tvöföldu loftslagskerfi sem ylli miklum flækjum og erfiðleikum fyrir fyrirtæki í rekstri hér á landi og gerði þeim jafnvel ómögulegt að starfa áfram. Það var kalt mat okkar sem þar sátum að eina leiðin til að stuðla að því að hér væri eðlilegt rekstrarumhverfi fyrir þessi fyrirtæki væri að fara ESB-leiðina, þ.e. að nýta okkur kosti þess að í gegnum EES-samninginn erum við hluti af losunarkerfi eða losunarheimildamarkaði Evrópusambandsins. Og vegna þess að sú tilskipun var innleidd 2005, eins og ég hef áður komið að, mun þetta detta inn í íslenska löggjöf, ef þannig má að orði komast, innan fárra missira. Það er alveg ljóst að þetta var gert til að reyna að koma í veg fyrir það að þegar tímabil hins svokallaða íslenska ákvæðis rynni út í lok árs 2012 stæðum við uppi tómhent vegna þess að við gátum ekki stólað á að alþjóðlegar samningaviðræður bæru árangur þó að það hafi reyndar litið miklu betur út 2007 og 2008 en það gerir í dag. Svo kemur í ljós að alþjóðlegu viðræðurnar strönduðu, því miður, í Kaupmannahöfn 2009 og þá er eins gott að hafa sett undir þennan leka, forseti.