139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:27]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég get fullvissað hv. þm. Ragnheiði Elínu Árnadóttur um að frá upphafi vega hefur hagsmunum Íslands og sérstöðu, af því að um margt er óvenjuleg staða í orkumálum hér á landi, verið haldið á lofti og mjög til haga í þessum samningaviðræðum. Alla þá tíð sem ég hef fylgst með þeim, sem nú er að verða rúmur áratugur, hefur það verið gert. Við höfum hins vegar tamið okkur að vera raunsæ í mati okkar á því hvað gæti hugsanlega gerst og hvernig við mundum síðan mæta því. Þess vegna blasti það við við innleiðingu kerfisins með losunarheimildir, sem kallað er ETS í Evrópusambandinu, að við værum hluti af því og við gætum nýtt okkur kosti þess. Þar er verið að nýta kosti markaðarins til að draga úr losun, í þessu tilfelli frá stóriðju og reyndar frá öðru líka, og það getum við nýtt okkur og eigum að gera og munum gera.

Síðan var svo sannarlega tekið tillit til sérstöðu og hagsmuna Íslands með ákvæðinu sem var samþykkt í Marrakesh 2001. Það er tímabundið ákvæði og það er á borðinu og hefur svo sannarlega verið á borðinu allan þennan tíma. En hvað ætlum við að gera ef ekki næst framhald á hinum alþjóðlega samningi? Þá sitjum við uppi tómhent. Það er líka ábyrgðarhluti og það er það sem við höfum verið að búa okkur undir. Hægt er að nefna mörg dæmi um mikla hagsmunavörslu. Nærtækasta og nýjasta dæmið er tillagan um að votlendið fái sömu meðferð í bindingu og skógrækt og aðrar slíkar aðgerðir. Það skiptir Ísland gríðarlega miklu máli. Þar hefur svo sannarlega verið staðinn vörður um hagsmuni Íslands.