139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

496. mál
[17:43]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að þingmaðurinn hafi svarað sjálfri sér ágætlega. Málið snýst auðvitað að miklu leyti um hagsmuni, peninga og völd. Það snýst líka um undirliggjandi misrétti milli heimshluta og líka um það að ríkari hluti heimsins hefur gengið á auðlindir þess fátæka og dregið til sín fjármagn og völd öldum saman. Það snýst um að fátækustu lönd heims eru ekki tilbúin til að leggja á sig hvað sem er til að bæta fyrir lifnaðarhætti heimshluta þeirra ríku. Í þeim samskiptum vilja þróunarlöndin auðvitað að komið sé fram við þau af sanngirni, ekki bara til að koma í veg fyrir hlýnun heldur líka til að búa til kerfi til að draga úr áhrifunum.

Þetta er gríðarlega flókið pólitískt mál. Á Íslandi erum við þingmenn 63 og við komum okkur ekki saman um alla hluti. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna er verið að tala um að koma sér saman um stór verkefni þannig að ég held að sá tími sem það hefur tekið sé eðlilegur. Hins vegar voru mikil vonbrigði eftir Kaupmannahafnarráðstefnuna. Þá var búið að skrúfa væntingarnar töluvert upp en ég vonast til að það náist árangur og bindandi samkomulag í Suður-Afríku vegna þess að það er einfaldlega lífsnauðsynlegt að við höfum í hendi hvað tekur við þegar tímabili Kyoto-bókunarinnar lýkur.