139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vill þannig til að þeir fulltrúar þjóðarinnar sem fara með stjórnskipunarvaldið eru staddir í þessum sal, þeir eru 63 og hv. þingmaður er einn af þeim. Tekin var ákvörðun um að útbýta stjórnskipunarvaldinu til 25 aðila þannig að það eru langtum færri fulltrúar þjóðarinnar sem koma að því að skapa nýja stjórnarskrá en stjórnskipunarvaldið segir til um, sérstaklega þegar litið er til þess að það voru einungis 80 þúsund einstaklingar sem kusu í stjórnlagaþingskosningunni en í alþingiskosningunum taka yfirleitt þátt á milli 78–80% kosningabærra manna. Þannig að stjórnskipunarvaldið er alveg klárt, það er hér inni. Ég benti á í greinargerð með nefndaráliti að hefðu verið stjórnarskrárbreytingar í síðustu kosningum hefðu 90 lýðræðislega kjörnir fulltrúar komið að þeim vegna þess að fyrst hefðu 63 þingmenn kosið um breytingarnar, síðan hefði þing verið rofið og boðað til nýrra kosninga þar sem stjórnarskrárbreytingarnar hefðu verið undir, og síðan komu inn 27 nýir þingmenn inn á þing í kosningunum 2009. Með þeim og þeim sem voru endurkjörnir hefðu komið samtals 90 manns að stjórnarskrárbreytingum.

Mig langar til að deila áhyggjum mínum með þingmanninum og sjá hvaða álit hann hefur á þessu. Lagt er til í þingsályktunartillögunni að þeir 25 efstu sem hlutu kjör í kosningum sem nú hafa verið dæmdar ógildar taki sæti í stjórnlagaráði. Segjum sem svo að ekki nema helmingurinn af þeim aðilum þiggi þetta sæti. Finnst þingmanninum það ekki áhyggjuefni? Því þá verður farið svo langt niður nafnalistann samkvæmt þingsályktunartillögunni. Telur þingmaðurinn að einhverjir varamenn séu tilbúnir á hliðarlínunni til að stökkva inn í stjórnlagaráð og fara að semja nýja stjórnarskrá? (Forseti hringir.) Er fólk ekki bara bundið við vinnu og skóla og annars staðar? (Forseti hringir.) Hvernig á að afgreiða þetta varamál?