139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[18:28]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmenn auki ekki hróður sinn með því að leggja fram tillögur sem eru til þess fallnar að grafa undan meginreglu stjórnskipunar okkar sem kveður á um þrískiptingu ríkisvaldsins, sem viðhöfð hefur verið í stjórnskipan okkar og annarra landa sem við kjósum að bera okkur saman við. Það er auðvitað gert með þessari tillögu, a.m.k. eins og Sigurður Líndal orðaði það, menn eru að reyna að sniðganga þá meginreglu sem fram kemur í 2. gr. stjórnarskrárinnar og í flestum stjórnarskrám hinna vestrænu ríkja.

Hv. þingmaður spyr um tímahrak. Það er alveg rétt að mönnum lá mikið á að afgreiða þetta mál og tryggja það að stjórnlagaráðið gæti lokið störfum þann 1. júní. Ég get upplýst hv. þingmann um af hverju það var. Jú, það er vegna þess að þann 1. júní á sá húsaleigusamningur sem fyrir liggur um húsnæðið, sem á að hýsa stjórnlagaráðið, að renna út. Stjórnlagaráðið og stjórnarskrárbreytingarnar eru því komnar í tímahrak út af gildistíma húsaleigusamnings. Það er einhver vafasamasti og óheppilegasti grundvöllur undir starf sem lýtur að stjórnarskrárbreytingum sem ég hef heyrt um. Ég vona að það fréttist a.m.k. ekki mjög langt út fyrir landsteinana að þannig sé haldið á málum á Alþingi Íslendinga þegar kemur að því að endurskoða stjórnarskrána.

Endurskoðun á stjórnarskrá er alvarlegt mál. Þar er fjallað um grundvallarlög þjóðarinnar og ríkisins. Menn verða að gefa sér tíma í að vinna slíkt verk og það má ekki gera í einhverju (Forseti hringir.) tímahraki og tímapressu sem fram kemur í húsaleigusamningi um Ofanleiti 2.