139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:00]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að ég sé ekkert að ímynda mér. Reyndar var ég ekki kominn í þennan sal en ég sá það bara í sjónvarpinu þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins lögðust þversum (Gripið fram í: Þú veist nú hvernig fréttaflutningur er.) — það er enginn fréttaflutningur í þessari myndavél þarna, hún bara sýnir það sem hér gerist [Hlátur í þingsal.] — gegn tillögu að bindandi stjórnlagaþingi sem hefði verið leið til þess að reyna að breyta stjórnarskránni á lýðræðislegan hátt. Það er vafamál hversu margar ræður um fundarstjórn forseta voru fluttar til að stoppa það, en það voru á bilinu 600–1.600, að ég held. Við skulum þá bara orða það á þann veg að Sjálfstæðisflokkurinn eigi sér ekki sérstaklega glæsta sögu, það séu ekkert sérstaklega margir í Sjálfstæðisflokknum sem hafi verið áhugasamir um að breyta stjórnarskránni á lýðræðislegan hátt, held ég megi óhikað segja.

Nú er að koma í ljós (Forseti hringir.) að þrátt fyrir að samkomulag hafi verið um að fara þessa leið, (Forseti hringir.) stjórnlagaþing og þess háttar, að menn eru að tala hér (Forseti hringir.) á þeim grunni að þeir vilji bara ekki fara í þessa vegferð. (Forseti hringir.) Það er að koma í ljós.