139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:02]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hygg að ég hafi breytt ummælum mínum á þann veg núna áðan, til þess að þóknast hv. þingmanni, að Sjálfstæðisflokkurinn væri kannski ekki (Gripið fram í.) áhugasamur um breytingar á stjórnarskránni. Mér finnst hegðun hans gagnvart tillögum í þeim efnum leiða að því ákveðnar líkur. En gott og vel.

Hv. þingmaður talar um að ég sé að beita hér einhverjum mælskubrögðum eða eitthvað slíkt og hann talar um að ég sé að búa til gerviandstæðing. Ég var að segja að mér sýnist núna debattið vera milli þeirra sem vilja ekki fara þessa leið, stjórnlagaþingsleið, bara yfir höfuð, og hinna sem vilja fara þessa leið. Mér sýnist það bara vera að koma upp á yfirborðið, alveg kristaltært. Ég heyrði ekki betur en að hv. þm. Einar K. Guðfinnsson hefði lýst því yfir að hann vildi yfir höfuð ekki fara þessa leið, þessa stjórnlagaþingsleið. Heyrði ég ekki rétt? (Gripið fram í: Jú.) Já, þá er hv. þingmaður ekki (Gripið fram í.) gerviandstæðingur upp að því marki sem (Forseti hringir.) hann er til.