139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:09]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hingað upp í andsvar til að hrósa hv. þingmanni fyrir málefnalega og efnislega og fína ræðu. Mig langar líka til að koma með spurningu til hv. þingmanns, sem ef til vill kann að varpa ljósi á málin, vegna þess að betur sjá augu en auga. Ég held nefnilega að hann hafi ofsagt með viljaleysi Sjálfstæðisflokksins í því að breyta stjórnarskránni. Sjálfstæðisflokkurinn vill vissulega breyta stjórnarskránni, en hann vill gera það hér á vettvangi Alþingis.

En er eitthvað — vegna þess að við erum nú farin að ræða annað en formsatriðin og hina efnislegu útkomu, hina raunverulegu efnislegu útkomu — í málatilbúnaðinum núna sem breytir því að það er Alþingi Íslendinga sem á lokaorðið, að það er Alþingi Íslendinga sem kemur að þeirri tillögu sem kemur frá stjórnlagaráði? Hvað getur mögulega verið að í því ferli sem nú er farið af stað hvað Sjálfstæðisflokkinn (Forseti hringir.) varðar? Mögulega getur hv. (Forseti hringir.) þingmaður upplýst mig um þetta.