139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[19:51]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Ég tek nú til máls í erfiðu máli, einhverju því erfiðasta sem komið hefur til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi, en að mínu mati einhverju því allra nauðsynlegasta. Það er spurning hvar á að byrja.

Mig langar að drepa niður fæti haustið 2008 rétt í kjölfar hrunsins þegar hingað í pontu stigu tvær af þáverandi og núverandi þingkonum Sjálfstæðisflokksins og lýstu því yfir að þeim liði eins og þær væru afgreiðslukonur á kassa, þannig lýstu þær þingstörfum sínum. Þær voru í meiri hluta á þessum tíma en vildu leggja áherslu á það hversu valdalítið þingið væri gagnvart framkvæmdarvaldinu og að jafnvel þó að þær ættu sæti í ríkisstjórninni sem þá var við völd, Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, væru þær með öllu valdalausar.

Mjög margir hér á Alþingi, og þar á meðal ég, eru þeirrar skoðunar að breyta verði stjórnarskránni, um það heyrist mér flestir vera sammála. Þá spyr maður sig: Af hverju hefur ekki tekist að breyta stjórnarskránni af neinu viti fyrir utan það þegar mannréttindakaflanum var breytt árið 1995? Af hverju hefur Alþingi ekki tekist í um það bil 65 ár að breyta stjórnarskrá sem höfundarnir sjálfir töldu á þeim tíma nauðsynlegt að breyta?

Ég er þeirrar skoðunar, og Framsóknarflokkurinn var þeirrar skoðunar á flokksþingi sínu í ársbyrjun 2009, að alþingismenn hefðu einfaldlega of mikilla persónulegra hagsmuna að gæta, að flokkarnir, fjórflokkurinn, ættu of mikilla hagsmuna að gæta. Þeir væru búnir að samsama sig því kerfi sem hefði verið við lýði áratugum saman og þeir vildu ekki breyta neinu. Þess vegna lagði Framsóknarflokkurinn til, á einhverju fjölmennasta flokksþingi sem haldið hefur verið, að flokkurinn skyldi stíga stórt skref inn í framtíðina og leggja til, fyrstur þingflokka á Íslandi, að haldið yrði stjórnlagaþing. Með öðrum orðum var það eitt af grunnskilyrðunum að málinu yrði úthýst frá Alþingi. Alþingismenn áttu ekki að koma að því að breyta stjórnarskránni.

Ef menn skoða þessa ákvörðun er hún í raun eðlileg út frá því að það fer ekki vel á því á nokkrum vinnustað eða á nokkurri stofnun, hvar sem er, að starfsmenn sjálfir, ef kalla má alþingismenn starfsmenn, séu að breyta sínum eigin starfsreglum. Ég er líka þeirrar skoðunar að ef menn vilja raunverulega stíga skrefið í þá átt að útrýma flokksræði á Íslandi — flokksræði er hugtak sem hefur ómað í fjölmiðlum, nú síðast í dag og gær, í mörg ár, jafnvel áratugi, og ég tel að þetta sé eina leiðin til þess að reyna á einhvern hátt að sporna við hinu svokallaða flokksræði, við hinu svokallaða foringjaræði. Það er einfaldlega þannig að Alþingi Íslendinga nýtur ekki virðingar. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekki þeim að kenna sem þar sitja heldur sé það umgjörðin og regluverkið sem leiða það af sér að virðingin fyrir þessari stofnun er jafnlítil og raun ber vitni. Þetta eru allt staðreyndir og Framsóknarflokkurinn tók þessa ákvörðun. Ég var stoltur af því að vera í flokki sem ákvað að stíga það stóra skref að verða fyrstur flokka til að leggja til stjórnlagaþing og þetta er skýr stefna Framsóknarflokksins.

Þegar ný forusta tók við Framsóknarflokknum í kjölfar þessa flokksþings ákvað þingflokkurinn að styðja minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Það var erfið ákvörðun og deila má um hvort því samstarfi hafi farnast vel. En í mínum huga var þetta eina leiðin til að losa um þann hnút sem þá var óleystur á Alþingi. Það varð eitthvað að gerast og þetta var eina færa leiðin.

Við settum þau skilyrði að farið yrði í að bjarga heimilum landsins, að farið yrði í atvinnuuppbyggingu og hún yrði efld og að komið yrði á stjórnlagaþingi. Það var í rauninni það eina sem ríkisstjórnin hefur ekki svikið af þessum þremur loforðum, hún stóð við það að stjórnlagaþing skyldi haldið. Það var jákvætt skref og flestir sammála um að það yrði að fara í það en Sjálfstæðisflokkurinn stöðvaði það með málþófi á Alþingi þannig að málið tapaðist, það var einfaldlega staðan.

Eftir kosningar ákvað nýja ríkisstjórnin, ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna, að boða til stjórnlagaþings. Málið var aftur tekið fyrir á Alþingi og það sætti nokkrum breytingum. Ég sat ekki í nefndinni en mér skilst að margar af þeim breytingum hafi verið til þess fallnar að fá Sjálfstæðisflokkinn á einhvern hátt með á málið.

Ég var þeirrar skoðunar þegar ég sá frumvarpið að það væri orðið ansi undið og lúið, þær breytingar sem hefðu verið gerðar hefðu ekki allar verið til batnaðar. Og ég hafði orð á því hér í ræðustól Alþingis að ég teldi að það hefði átt að vinna málið betur. Kannski voru það mistök að reyna að ná samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn, það má velta því fyrir sér, en ég tel samt að sú samstaða sem náðist þá á Alþingi hafi verið málinu til framdráttar.

Við framsóknarmenn sáum á því ýmsa agnúa. Stærsti agnúinn var sá að það átti að gera landið að einu kjördæmi. Ég kom hingað upp í ræðustól og benti á að það væri einfaldlega þannig að landsbyggðin mundi væntanlega eiga fáa aðila á þessu þingi. Ég hafði rétt fyrir mér. Engu að síður, með þá vitneskju í farteskinu, ákvað allur þingflokkur Framsóknarflokksins að samþykkja það að þetta stjórnlagaþing yrði að veruleika. Ég tel mig tala fyrir munn flestra í þingflokknum þegar ég segi að jafnvel þó að ýmislegt væri að töldum við það þó til þess vinnandi að reyna að ná fram breytingum á stjórnarskránni með þessum hætti. Það var líka skilyrði eða lykilatriði að við vildum úthýsa verkefninu frá Alþingi, það var algjört lykilatriði í mínum huga.

Eins og alþjóð veit kusu um 80 þúsund manns. Það má deila um hvort það sé lítil eða mikil þátttaka í kosningum sem slíkum þar sem ekki er kosið um málefni heldur um menn. Færð hafa verið sannfærandi rök fyrir því að í rauninni sé þetta ágætisþátttaka í ljósi þess að ekki var verið að kjósa um málefni. En það hafa líka verið færð sannfærandi rök fyrir því að þátttakan hefði mátt vera betri.

Til að gera langa sögu stutta ákvað Hæstiréttur að ógilda skyldi kosninguna. Það gerði hann með ákvörðun 25. janúar 2011. Hann lýsti kosninguna til stjórnlagaþings 27. nóvember 2010 ógilda. Ég virði þá niðurstöðu. Ég er henni ekki alveg sammála. Ég held reyndar að það skipti ekki öllu máli, niðurstaðan er að mínu mati skýr og ég tel að hana beri að virða.

Ríkisstjórnin ákvað að skipaður yrði samráðshópur til að finna út hvaða skref ætti að stíga næst í þessu ferli. Þingflokkurinn ræddi það hvort við ættum yfir höfuð að vera að skipa fulltrúa í þennan samráðshóp en ákvað engu að síður að í ljósi þess að við hefðum haft þessa stefnu skyldum við taka þátt í því að reyna að komast að niðurstöðu um hvað skyldi gera í kjölfarið.

Af hverju var sú ákvörðun tekin, eins og ég skil það? Jú, vegna þess að Hæstiréttur segir í rauninni ekki til um hvað eigi að gera í kjölfarið á því að kosningin var ógilt. Það er aðeins eitt sem felst í því að Hæstiréttur ógilti kosninguna, það er að þessir 25 sem hlutu kjör fá einfaldlega ekki kjörbréf. Þá ákvörðun hefur Alþingi virt að mínu mati.

Það voru þrjár leiðir færar í ljósi niðurstöðu eða ákvörðunar Hæstaréttar. Það fyrsta var einfaldlega að byrja upp á nýtt. Ég talaði fyrir þeirri leið í upphafi og taldi að hægt væri að gera það mikla bragarbót á frumvarpinu. En eftir að hafa rifjað upp feril þessa máls hér á Alþingi síðustu 65 árin um það bil, þau átök sem áttu sér stað á Alþingi þegar verið var að samþykkja þetta, og í ljósi þeirrar breiðu samstöðu sem þó náðist um þetta stjórnlagaþing, mat ég hlutina á þann veg að ef við mundum byrja upp á nýtt yrði stjórnlagaþing aldrei að veruleika. Það vildi ég alls ekki. Það var að mínu mati líka gegn stefnu míns flokks.

Þá eru tvær aðrar leiðir sem ég svo sem geri ekki upp á milli. Fyrsta skal nefna hina svokölluðu uppkosningu. Hæstiréttur segir ekki í niðurstöðu sinni að það eigi að fara í uppkosningu. Hins vegar kom fyrir samráðshópinn hæstaréttarlögmaður, Gestur Jónsson, sem færði rök fyrir því að um væri að ræða lagalega réttustu leiðina og vísaði í kosningar til sveitarstjórna og til Alþingis máli sínu til stuðnings. Hins vegar bentu aðrir, færir lögmenn og lagaprófessorar, á að í lögin um stjórnlagaþing vantaði ákvæði sem heimiluðu uppkosningu. Eiríkur Tómasson lagaprófessor benti á að það væri að hans mati bagalegt og hann taldi að ekki væri hægt að fara í uppkosningu án þess að breyta lögum.

Gott og vel. Síðan kemur það upp að forsetinn ákveður að vísa Icesave-málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu og menn fara að tala um að kjósa til stjórnlagaþings á sama tíma. Þá voru menn að hugsa út í kostnaðinn vegna þess að það að kjósa í tvennu lagi hefði kostað mikla peninga sem fæstir hér á Alþingi voru reiðubúnir til að láta út úr sjóðum ríkisins, auk þess sem menn áttuðu sig líka á því að mjög skammur tími var til stefnu.

Ég skildi ekki fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í þessum samráðshópi á annan veg en þann að sú leið væri leiðin sem Sjálfstæðisflokkurinn vildi síst af öllu fara. Ég gat ekki skilið það á annan veg og ég óska eftir því að vera leiðréttur ef ég hef misskilið þau orð. Ég skildi fulltrúann líka á þann veg að þingmenn Sjálfstæðisflokksins mundu tala mikið og ítarlega ef ákveðið yrði að fara hins svokölluðu uppkosningaleið.

Þegar horft var til baka, til þess sem gerðist hér vorið 2009, varð manni fljótt ljóst að ef Sjálfstæðisflokkurinn vildi stöðva málið á Alþingi, eins og hann gerði þá með málþófi, gæti hann mjög hæglega gert það. Ég ætla ekki að ætla þeim að þau hafi verið með það í huga en uppkosningin var sú leið sem þau síst af öllu vildu, við reyndum að ná um hana samstöðu. Ég mat það því þannig að ef við hefðum farið þá leið hefði málið væntanlega tapast aftur.

Þá er þriðja leiðin og kannski sú erfiðasta á þó grýttri vegferð og það er að skipa hóp manna í ráð eða nefnd til að taka við þeim tillögum sem komu frá þjóðfundinum og frá stjórnarskrárnefndinni. Ég skildi fulltrúa Sjálfstæðisflokksins, hv. þm. Pétur H. Blöndal, á þann veg að hann væri ekki svo fráhverfur þeirri hugmynd. Hann vildi að vísu ekki skipa þessa 25 sem var þó á endanum lagt til að yrðu skipaðir heldur vildi hann að Alþingi skipaði einhvern hóp manna en það er þvert gegn minni sannfæringu um að úthýsa eigi verkefninu frá Alþingi.

Hverja átti nú Alþingi að skipa án þess í rauninni að vera með puttana í því ferli á einhvern hátt? Þá kom ekkert annað til greina en að líta aftur til þessara 25 einstaklinga sem höfðu þó notið einhvers konar meiri hluta í þessum kosningum og skipa þá í ráðið. Þar með höfum við sagt að Alþingi hafi ekki valið þessa menn vegna þess að þarna eru einstaklingar sem ég kaus ekki, svo ég tali fyrir mig persónulega. En í ljósi þess að ég vil ekki að alþingismenn skipti sér af þessu ákvað ég að setja það ekki fyrir mig, þar eru mjög margir sem ég treysti og veit að þetta ráð mun skila góðri niðurstöðu.

Nú hefur verið sagt og haft hátt um það að verið sé að ganga gegn Hæstarétti. Mig langar til að spyrja: Hvað áttum við að gera í kjölfar dóms Hæstaréttar? Þar liggur að mínu mati hundurinn grafinn. Var þetta dómur? Þetta var ákvörðun æðsta stjórnvalds, að mínu mati.

Höfum eitt í huga: Hversu margir dómarar dæmdu eða tóku ákvörðunina? Þeir voru sex. Þetta voru sex hæstaréttardómarar sem er fáheyrt ef um dómsmál er að ræða. Þá eru þeir annaðhvort þrír, fimm eða sjö. (Gripið fram í.) Hvað hefðu menn gert ef niðurstaðan hefði verið 3:3? (Gripið fram í: Það fór ekki 3:3.) Hvað þá? (Gripið fram í.) Ég spyr hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem eru farnir að kalla hérna fram í, þar er nú að koma að andsvörum bara eftir nokkrar sekúndur. En hvað þá? Hefðu menn þá komið fram og sagt: Nei, þetta er ígildi Hæstaréttar, sem ég tel af og frá.

Þetta eru rökin fyrir því (Forseti hringir.) að ég tel að þetta sé eina leiðin til að halda áfram á þessari vegferð. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé eitt af stærstu verkefnum þjóðarinnar, Alþingis, (Forseti hringir.) eftir hrun að ná fram breytingum á stjórnarskránni. Ég hef viljað úthýsa því frá (Forseti hringir.) Alþingi og við það stend ég.