139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:14]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við erum að sjálfsögðu ósammála um þetta, það er bara þannig. Ég tel, og hef fært fyrir því ágætisrök að mínu mati jafnvel þó að hv. þingmanni þyki það ekki, að verið sé að virða niðurstöðu Hæstaréttar. Ég spyr á móti: Hvað leggur Hæstiréttur til? Ef þetta væri hæstaréttardómur hefði hann væntanlega einhverja skyldu í för með sér fyrir þann sem tapaði dómsmálinu. Hann þyrfti að reiða eitthvað af hendi eða láta einhverja eign af hendi. En hvað í þessu máli gerir það að verkum að við erum að vanvirða niðurstöðuna?

Ég heyrði hv. þingmann tala áðan um að hann vildi fara í uppkosningu. Er meiri hluti fyrir því í þingflokki Sjálfstæðisflokksins að fara uppkosningarleiðina? Hvar í lögunum segir að við eigum að fara þá leið? Ég ber mikla virðingu fyrir öllum þeim lögmönnum sem þú taldir upp, þú hefðir getað talið upp miklu fleiri lögmenn sem ég hef verið sammála og einnig ósammála í gegnum tíðina. Sigurður Líndal lagaprófessor talar um ígildi hæstaréttardóms án þess í rauninni að rökstyðja það frekar. Hvernig getur ákvörðun sem tekin er af sex hæstaréttardómurum — hún hefði getað farið 3:3 og hvað þá? — verið ígildi hæstaréttardóms?

Ég vil spyrja: Hver af þessum lögmönnum hélt því fram að verið væri að brjóta lög? Er ekki rétt hjá mér, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið, að enginn af þessum lögspekingum hefur verið reiðubúinn að (Forseti hringir.) lýsa því yfir að verið sé að brjóta lög jafnvel þó að þeir séu pólitískt ósammála leiðinni sem hér er farin?