139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:17]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvort sem menn kalla niðurstöðu Hæstaréttar dóm, úrskurð eða ákvörðun er niðurstaðan endanleg og henni verður ekki áfrýjað. Róbert Spanó lagaprófessor sagði að niðurstaða Hæstaréttar væri í engu ólík dómi Hæstaréttar og hana bæri að virða og undir þetta tók Sigurður Líndal, einnig lagaprófessor, og sagði að hún væri ígildi dóms, niðurstaðan væri endanleg og hefði réttaráhrif sem slík.

Hv. þingmaður telur að með tillögunni sé dómurinn virtur og farið eftir honum. Vandi hv. þingmanns er sá að enginn af þeim sem leitað hefur verið til, þeirra færu manna og fræðimanna sem um þetta hafa fjallað, er sammála hv. þingmanni, enginn. Það tekur enginn undir sjónarmið hv. þingmanns. Því velti ég fyrir mér, hvort ekki fari að renna tvær grímur á hv. þingmann þegar fylgi við skoðun hans að þessu leyti er ekki meira. (Forseti hringir.)

Ég vil síðan segja það, frú forseti, að ég er ekki hlynntur uppkosningu vegna þess að ég er (Forseti hringir.) ekki hlynntur stjórnlagaþingi. En ég bendi á að það væri rökréttari niðurstaða en þessi tillaga.