139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:25]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kæri mig ekki um það frekar en aðrir þingmenn hér að þeim séu lögð orð í munn. Ég hef aldrei sagt að ástæðan fyrir því að ég vilji fara þessa leið sé sú að fjöldi dómara í Hæstarétti var ekki oddatala. Því fer víðs fjarri. Ég var bara að benda á að Hæstiréttur starfaði í rauninni ekki sem Hæstiréttur heldur voru þetta hæstaréttardómarar skipaðir sem einhvers konar æðsta stjórnvald. Ég ber virðingu fyrir niðurstöðunni og ég tel mig ekki þurfa að ítreka það neitt sérstaklega.

Ég treysti líka Alþingi til að taka þessari niðurstöðu og ég bið menn að hlusta á það sem hér hefur komið fram. Ég hef hins vegar sagt að alþingismenn eigi ekki skipa sér sjálfir starfsreglur og eigi ekki að fara með þessi mál. Það er skoðun mín (Gripið fram í.) og þess vegna vil ég breyta stjórnarskránni hvað þetta varðar, nákvæmlega þess vegna. Ég er í hlutverki löggjafans, við getum tekið ákvörðun um að breyta stjórnarskránni (Forseti hringir.) og ég held að hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins, sem allt í einu núna eru til í að breyta stjórnarskránni, upplýsi okkur um (Forseti hringir.) hverju þeir vilji breyta í stjórnarskránni, (Forseti hringir.) um hvað er víðtæk sátt og samstaða innan þingflokks Sjálfstæðisflokksins og koma með (Forseti hringir.) hér í umræðuna.