139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:29]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstaréttardómararnir sem sátu sem æðsta stjórnvald að mínu mati ógiltu kosningarnar. Um það erum við sammála, það veit ég. Hvaða skref á að stíga í kjölfarið? Ég mundi vilja fá að vita frá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins hvaða skref þeir teldu eðlilegast að stíga eftir að Hæstiréttur ógilti kosningarnar. (Gripið fram í.)

Það eina sem þessi niðurstaða leiddi af sér var að einstaklingarnir fengu ekki kjörbréf. Rétt, ég veit að þingmaðurinn er sammála þeirri greiningu. Sú rödd heyrðist frá fulltrúa Sjálfstæðisflokksins að skipa ætti einhvers konar nefnd á vegum Alþingis sem tæki við tillögum stjórnarskrárnefndar og þjóðfundarins.

Hverjir voru betur til þess fallnir, ef skipa átti svona nefnd á annað borð, en þessir 25 einstaklingar? Ég tel að við séum að sýna þarna í verki að við viljum halda áfram að stíga þau skref sem nú hafa verið stigin. Þetta er erfið leið og vandrötuð og hún er umdeilanleg, en að því sé haldið fram hér með miklum hávaða og með því að segja það eins oft og hægt er að verið sé að vanvirða niðurstöðu Hæstaréttar það get ég ekki sætt mig við, vegna þess að ég tel að þessi ákvörðun, ákvörðun löggjafarvaldsins, (Forseti hringir.) ákvörðun þeirra sem eru þjóðkjörnir hér á landi brjóti ekki í bága við (Forseti hringir.) dóm Hæstaréttar.