139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skil hv. þingmann þannig að hann telji það nægjanlegt til að bregðast við niðurstöðu Hæstaréttar að skipta um nafn á samkomunni og skipta um þann aðila sem úthlutar fólkinu umboðsbréf, hvort sem við köllum það skipunarbréf eða kjörbréf, að að hans mati séu það næg viðbrögð við niðurstöðu Hæstaréttar um ógildingu kosninga að framkvæma minni háttar, óverulegar útlitsbreytingar, engar breytingar sem skipta máli varðandi innihaldið. Þetta finnst mér athyglisvert vegna þess að staðan er auðvitað sú að þegar kosning hefur verið ógilt er afar hæpið, svo ekki sé meira sagt, að byggja á niðurstöðum hennar eins og þessi tillaga gengur út á. Tillagan gengur út á það að byggt er á niðurstöðu kosningar og engu öðru en (Forseti hringir.) niðurstöðu þeirrar kosningar til að komast að niðurstöðu um það hverjir eigi að skipa þetta ráð. (Forseti hringir.) Ég tel það hreint út sagt út í hött.