139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:33]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér koma þingmenn Sjálfstæðisflokksins upp í andsvör, ekki bara við mig heldur fleiri þingmenn, en svara ekki spurningunni: Hvað bar að gera við ákvörðun Hæstaréttar? Þeir skauta fram hjá þeirri spurningu ítrekað. (BÁ: Sjö blaðsíðna nefndarálit.) Hvað bar að gera, hv. þm. Birgir Ármannsson, við niðurstöðu Hæstaréttar? (BÁ: Sjö blaðsíðna nefndarálit.)

Það sem bar að gera og það eina sem hægt var að gera að mínu mati var að Alþingi tæki ákvörðun um framhaldið. Þar voru þrjár leiðir færar að mínu mati: Byrja upp á nýtt. Ég útskýrði það hér í löngu máli af hverju ég teldi að sú leið væri ekki fær. Fara í uppkosningu. Ég taldi líka upp af hverju ég teldi þá leið ekki færa, m.a. vegna þess að hv. þingmaður lýsti því yfir að hann mundi ekki sitja neitt sérstaklega á sér í þeirri umræðu, (Forseti hringir.) hann mundi jafnvel tala oft og ítarlega. (Forseti hringir.) Og þá taldi ég þetta vera einu leiðina. (Forseti hringir.) Við það stend ég.