139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[20:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef spurt alla þá sjálfstæðismenn sem hafa komið í andsvör út í það hvað fólst í niðurstöðu Hæstaréttar. Við erum sammála um að Hæstiréttur ógilti kosningarnar en enginn gat svarað þessari spurningu. Ég hjó eftir því í ræðu hv. þm. Bjarna Benediktssonar að hann teldi að í dómnum fælist það að byrja ætti upp á nýtt. Ég las það þannig og skrifaði niður jafnvel tvisvar að byrja ætti upp á nýtt og nefndi svo aftur að það ætti að byrja frá grunni. Er það ekki rétt túlkun mín?

Ég spyr þá: Er það nákvæmlega það sem fólst í þessari niðurstöðu? Getur verið að löggjafinn hafi heimildir til þess að bregðast við niðurstöðunni, nýta þá vinnu sem nú þegar hefur verið unnin — það eru allir held ég sammála um að hún sé góð — koma því í stjórnlagaráðið og málið fari síðan inn á Alþingi? Ég spyr hv. þingmann: Er það svo langt frá þeirri hugmynd sjálfstæðismanna að skipa þessa nefnd af þingmönnum? Hverjir ættu að sitja í þeirri nefnd? Erum við ekki í rauninni að tala um sama hlutinn, nema þá að Sjálfstæðisflokkurinn vill alls ekki að þessir 25 sitji í þessari nefnd eða ráði, þeir vilja bara að það séu einhverjir aðrir og þingmenn velji þá?