139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:05]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg laukrétt hjá hv. þingmanni að að óbreyttri stjórnarskránni mun þingið hafa síðasta orðið og reyndar munu tvö þing, ásamt með forseta, fara með stjórnarskrárbreytingarvaldið. Það sem við gerum athugasemd við er það að verið sé að leggja út í þann óþarfa að stjórnlagaþingi eða ráðgefandi stjórnlagaþingi eða ráðgefandi stjórnlagaráði — þetta er sem sagt þriðja útgáfan að aðdraganda þess að stjórnarskránni sé breytt — sé komið á fót. Það er óþarfi vegna kostnaðarins, það er óþarfi vegna þess að við höfum hvort eð er síðasta orðið hér á þinginu og okkur er ekkert að vanbúnaði. Það mætti í reynd snúa þessari spurningu upp á hv. fyrirspyrjanda og spyrja: Hvað kemur í veg fyrir að við byrjum nú þegar með það sem þó hefur gerst hefur síðustu tvö ár og það sem áður var komið fram?

Í þessu sambandi finnst mér mikilvægt að það hefur verið mjög óskýrt af hálfu þeirra sem standa að þessari hugmynd hvort þeir teldu sig vera pólitískt, eða með einhverjum hætti siðferðislega, jafnvel næstum því lagalega, skuldbundna af niðurstöðu stjórnlagaþingsins. Þannig er það t.d. með marga stuðningsmenn þessarar hugmyndar um stjórnlagaráð að þeir telja rétt að stjórnlagaráðið sendi hugmyndirnar í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en þær koma til þingsins. Hvaða áhrif mundi það t.d. hafa á afstöðu hv. þingmanns að þjóðin hefði komið að málinu í millitíðinni? Er ekki augljóst, eins og hv. þm. Höskuldur Þórhallsson tók fram í sínu máli, að þeir sem standa að þessu máli eru að ýta þessu út úr þinginu? Ég fagna því ef hv. þingmaður er mér sammála um að við erum óskuldbundin af öllum þessum hugmyndum.