139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum enn tillögu til þingsályktunar um stjórnlagaráð eftir að hafa rætt stjórnlagaþing og þessi málefni aftur og aftur.

Ég ætla að leyfa mér að líta yfir sviðið. Hvernig lítur þjóðfélagið út? Hvað er að gerast? Hér virðist allt stefna í kyrrstöðu og stöðnun. Fjöldamörg dæmi sýna það. Vextir fara niður, sem menn hefðu glaðst yfir einu sinni. Verðbólga fer niður; sömuleiðis ástæða til að gleðjast. En menn gleðjast samt ekki vegna þess að fjárfesting í þjóðfélaginu er sú minnsta sem verið hefur og fjárfesting er undirstaða og forsenda þess að hér skapist atvinna. Atvinnuleysið er óbrotið, mjög mikið og allt of hátt og búið að standa allt of lengi. Ekki nóg með að við séum með atvinnuleysi heldur hefur fjöldi fólks flust til útlanda. Vinnuafl landsins, mannauðurinn, mesta auðlind landsins er að flytja til útlanda.

Þá kemur að áherslum hæstv. ríkisstjórnarinnar, frú forseti. Á hvað leggur ríkisstjórnin áherslu í þessari stöðu? Er hún að reyna að skapa atvinnu? Ónei. Er hún að fara í fjárfestingar? Ónei. Ætlar hún að virkja? Nei. Ætlar hún að auka kvótann? Nei. Ætlar hún að lækka skatta? Nei. Nei, hún er að sinna alls konar gæluverkefnum. Fyrst var eytt mörgum, mörgum mánuðum í að bola einum ákveðnum manni út úr Seðlabankanum. Það voru ógurlega langir fundir um það, og það tókst. Til hamingju með það, hæstv. ríkisstjórn.

Síðan var sótt um aðild að Evrópusambandinu með vafasömum hætti, vil ég segja vegna, þess að annar stjórnarflokkurinn lýsti því yfir að hann væri á móti því að ganga í Evrópusambandið. Haldnar voru frægar ræður. Ég man alltaf eftir ræðu hæstv. umhverfisráðherra Svandísar Svavarsdóttur sem var ótrúleg. Ég skora á menn enn einu sinni að lesa þá ræðu sér til upplýsingar og uppljómunar vegna þess að sá hæstv. ráðherra er á móti Evrópusambandinu. Hún er á móti hernaðarbröltinu þar. Hún er á móti þessu og á móti hinu. Hún vill ekki ganga í Evrópusambandið, hún vill ekki sækja um aðild en hún sagði já. Það var gert. Mikil áhersla var lögð á að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Nú er í fullum gangi að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem flestir eru samt sammála um að verði fellt. Hvers vegna eru menn að slíku brölti, sem kostar óhemju fé, óhemju orku í ráðuneytunum og úti um allt, á meðan atvinnu vantar í landinu?

Þegar þetta var nýbúið fóru menn og gerðu makalausan samning um Icesave, ég veit ekki hvað ég á að kalla það fyrirbæri. Það var keyrt hérna í gegn og menn eru núna að lýsa því yfir að þeir hafi samþykktu það án þess að hafa lesið það. Það var keyrt í gegn af stjórnarflokkunum. Menn fóru í ógurlegar umræður um Icesave. Með breytingu tókst að bjarga því fyrir horn. Svo samþykktu Bretar það ekki og þá var farið í Icesave 2 sem var hræðilegur samningur og nú kemur Icesave 3. Hann er vissulega betri en í málið hefur farið óskapleg orka. Ef menn hefðu bara tekið á þessum málum af alvöru og þunga á móti útlendingunum, Bretum og Hollendingum, værum við ekki í þessari stöðu. Þá hefðum við ekki eytt svona óskaplega mikilli orku í þetta fyrir utan hvað það kostar ríkissjóð ef Icesave 3 verður samþykkt. Þá fara strax úr landi 30–40 milljarðar í gjaldeyri, (Gripið fram í.) í dýrmætum gjaldeyri sem við eigum ekki of mikið af.

Þegar það var búið þá var staðið í útistöðum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Svo á að hringla með fiskveiðistjórnarkerfið. Ég man eftir því núna að menn fóru að gæla við það. Skattkerfið var flækt alveg undir drep. Það var flækt eins mikið og það ræður við, frú forseti. Ég hugsa að þetta endi með því að þjóðfélagið stöðvist af því að það eru allir að vinna í skattkerfinu og alls konar álíka hlutum, flækjum sem koma þar fram. Menn þurfa bara að tala við það fólk sem er að reikna út laun eða þá sem reikna út alls konar gjöld, vörugjöld og annað slíkt. Það er búið að flækja þetta allt undir drep. Það getur vel verið að þjóðfélagið sé að stöðvast út af því, ég veit það ekki. Af einhverjum ástæðum eru fjárfestingar dottnar niður. Það er náttúrlega vegna þess að ríkisstjórnin er á móti fjárfestingum yfirleitt. Hún er á móti fjármagni, hún skammast stöðugt út í fjármagn, sem vill svo til að óhætt er að segja að sé yfirleitt alltaf í eigu heimila, það eru ekki aðrir sem eiga fjármagn eða sparifé öðru nafni. Fyrirtæki eiga ekki sparifé, útrásarvíkingarnir áttu ekki sparifé og bankar eiga ekki sparifé — þeir taka við sparifé og lána það út — ríkissjóður á ekki sparifé eða sveitarfélögin. Það eru heimilin sem eiga sparifé. Þau eru hinir „ljótu fjármagnseigendur“, heimilin.

Til viðbótar við allt þetta ætla menn sér að breyta stjórnarskránni. Vissulega er mikil þörf á því að breyta stjórnarskránni. Ég er búinn að lýsa því yfir aftur og aftur. Ég er búinn að flytja frumvörp um að leggja niður embætti forseta Íslands án þess að taka nokkuð afstöðu til þess hver gegni því akkúrat núna, sem er mætur og gegn maður. Nei, menn ætla að breyta stjórnarskránni. Það á að vera eins og í Harry Potter, bent, galdrar, töfrar og allt er leyst. Verðbólgan hverfur, atvinnuleysið hverfur og ég veit ekki hvað. Gott ef það kemur ekki gott veður alla daga, frú forseti. (Gripið fram í.) Sólskin alla daga og rigning á nóttunni. Það verður eitthvað svoleiðis ef stjórnarskránni er breytt.

Stjórnarskráin á enga sök á hruninu. Ég vil að einhver bendi á eitthvert atriði í stjórnarskránni sem olli því að hér varð hrun. Það er ekkert samhengi þar á milli. Ný stjórnarskrá breytir engu um stöðu heimilanna eða fyrirtækjanna í landinu. (Gripið fram í: Hver er að segja það?) Já, það er nefnilega spurningin. Af hverju standa menn þá í þessu þrefi akkúrat núna? Af hverju gera þeir það ekki eftir fimm ár? Menn eru ekkert að breyta stjórnarskránni bara sisvona. Það á að gerast mjög hægt og það á að vera samstaða um það meðal allra þegna þjóðfélagsins, þeir eiga helst að vera allir sammála um að þannig vilji þeir hafa stjórnarskrána.

Ég hef mörgum sinnum rætt um nauðsyn á breytingu stjórnarskrárinnar. Ég flutti ræðu 17. febrúar 2009 þar sem ég teiknaði upp nýja stjórnarskrá. Ég tel nefnilega að stjórnarskráin eigi að fjalla um mannréttindi fyrst og fremst. Það er hlutverk stjórnarskrárinnar. Ég hefði gaman af því ef menn færu að ræða um hlutverk stjórnarskrár yfirleitt. Mannréttindi eru tvenns konar. Það eru mannréttindi sem verja mig fyrir öðru fólki og ríkinu, t.d. rétturinn til lífs, eignarrétturinn, málfrelsi, trúfrelsi o.s.frv. Það eru réttindi sem ég hef og verja mig fyrir öðru fólki. Svo er það krafa mín á annað fólk, t.d. framfærsluskylda foreldra við börn sín, ungbörn og börn yfirleitt, það er framfærsluskylda ríkisins við öryrkja og aldraða sem lenda á vonarvöl. Það er krafa einstaklingsins á annað fólk og hún er að sjálfsögðu háð landamærum. Sú krafa er öðruvísi á Íslandi en í Sómalíu, frú forseti, svo að menn átti sig á því, en fyrstu gráðu mannréttindi eru óháð landamærum, svo að það liggi fyrir. Þessu er ég öllu búinn að lýsa. Til þess að tryggja mannréttindi í stjórnarskránni stofnum við ríki, ríki til að tryggja borgaranum mannréttindi en ekki öfugt. Við þrískiptum ríkisvaldinu til að verja borgarann fyrir ríkinu til þess að það verði ekki of sterkt. Þetta eru mínar hugmyndir, svona vil ég sjá stjórnarskrána — akkúrat svona.

Það þarf að sjálfsögðu að nefna Hæstarétt í stjórnarskránni, hann er ekki í núgildandi stjórnarskrá. Hann á að hafa tvenns konar hlutverk: Hann á annars vegar að vera hæsti réttur, æðsti réttur, og hins vegar á hann öðru hverju að hafa hlutverk stjórnlagadómstóls til að kveða á um hvort lög frá löggjafarsamkundunni standist stjórnarskrá. Þessu er ég öllu búinn að lýsa fyrir löngu síðan.

Breytingar á stjórnarskránni á að gera hægt, þær á að gera rólega í samstöðu allrar þjóðarinnar. Auðvitað á þjóðin að geta verið sammála um hvað eru mannréttindi. Hún á að geta verið sammála um að það megi ekki drepa fólk. Hún á að vera sammála um að það megi ekki stela. Hún á að vera sammála um eignarréttinn — nema hvað? En hér á að keyra eitthvað í gegn.

Hvað erum við að ræða? Við erum ræða úrskurð Hæstaréttar. Hann dæmdi ákveðna kosningu ógilda. Þá reyna menn að gera eitthvað sem breytir eiginlega engu þannig að úrskurður Hæstaréttar hafi ekkert að segja. Í staðinn fyrir að kalla þetta stjórnlagaþing verður það núna kallað stjórnlagaráð. Í staðinn fyrir að þjóðin kjósi fólkið á Alþingi að kjósa sama fólk og ekkert á að breytast. Þetta kalla ég að sniðganga Hæstarétt. Ég ber svo mikla virðingu fyrir Hæstarétti að ég get aldrei fallist á þessa niðurstöðu, aldrei. Ég skil ekkert í fólki sem ber virðingu fyrir Hæstarétti að geta fallist á svona sniðgöngu Hæstaréttar. Það hefur ekki mjög sterk mótíf í lífinu eða prinsipp, svo að ég sletti.

Fjórar leiðir voru skoðaðar í nefndinni sem ég var tilnefndur í af mínum flokki. Ég þurfti reyndar að hætta undir lokin af ástæðum sem ég hef lýst. Menn ræddu fjórar leiðir. Ein var náttúrlega alveg út í hött, það var að telja upp á nýtt. Það breytti engu og hefði ekki breytt neinu um úrskurðinn og menn féllu fljótt frá því. Svo voru þrjár aðrar leiðir; að kjósa upp á nýtt og gera bara allt upp á nýtt, taka í það hálft eða eitt ár með miklum kostnaði, önnur að hafa svokallaða uppkosningu með sama fólkinu, þessum 500 í kjöri, og kannski hefði allt annar hópur verið kosinn og svo var þriðja leiðin sem mér fannst lökust af þessum þremur að gera það sem nú er lagt til, að kjósa þessa 25 einstaklinga í stjórnlagaráð. Það var lélegasta leiðin og hún var að sjálfsögðu valin.

Fimmta leiðin var til, frú forseti, en sú leið var aldrei rædd. Hún var að hætta við allt saman og kjósa sérnefnd á Alþingi um breytingar á stjórnarskránni, kjósa níu þingmenn sem fengju loforð um að þeir mundu ekki gera neitt annað, þyrftu ekki að mæta á þingfundi, ekki á nefndarfundi eða neitt. Það sem hefur hamlað almennilegum breytingum á stjórnarskránni hingað til eru annir þingmanna. Þeir mæta í hv. félagsmálanefnd, hv. allsherjarnefnd o.s.frv. Alla daga eru fundir. Svo sitja þeir í þingsal lon og don langt fram á kvöld. Það sýnir líka virðingu Alþingis fyrir málefninu að ræða það núna klukkan hálftíu og umræðu er ekki að ljúka. Ef þeir gerðu ekkert annað en þetta, þessir níu þingmenn, er ég viss um að þeir mundu klára verkið á hálfu ári eða styttri tíma, röskir menn og vanir. Mér finnst að menn hefðu átt að skoða það að hætta við allt saman.

Ef maður lítur á heiminn út frá sjónarhorni 25-menninganna, sem voru valdir úr hópi 500 manna sem er ákveðið afrek, er þetta óskapleg — hvað á ég að segja? — kannski ekki niðurlæging en það er verið að minnka vægi umboðs þeirra, þeir hafa alltaf minna og minna umboð. Fyrst voru þeir kosnir af þjóðinni. Þó að þátttakan hafi ekki verið neitt sérstaklega beysin voru þeir samt sem áður kosnir af þjóðinni, allir gátu mætt og kosið. Það var þjóðin sem kaus þá. Nú er búið að ógilda það, þeir eru ekki lengur kosnir af þjóðinni. Núna á Alþingi að tilnefna þá samkvæmt þessari tillögu. Þar með verða þeir eins konar verkfæri Alþingis og það sem meira er getur Alþingi gert það sem það vill við niðurstöðuna, hafnað henni, breytt henni eða samþykkt hana óbreytta.

Þá kem ég að því sem mér finnst alverst og það er 79. gr. stjórnarskrárinnar, að menn skuli ekki átta sig á því að ef henni verður ekki breytt kýs þjóðin aldrei um stjórnarskrána. Þjóðin hefur aldrei kosið um stjórnarskrána eina sér vegna þess að hún kýs um hana jafnframt alþingiskosningum. Hvað eru menn að hugsa, frú forseti, þegar þeir kjósa til Alþingis? Jú, þeir eru að hugsa um hvaða flokkum þeir treysti fyrir málefnum þjóðarinnar næstu fjögur árin, hvernig efnahagsstefnan verður, menntastefnan, mannúðarstefnan, utanríkisstefnan o.s.frv. Þeir hugsa ekki neitt um stjórnarskrána. Hv. kjósendur kjósa ekki sérstaklega um stjórnarskrána, nei.

Við þurfum að breyta 79. gr. Það er mjög brýnt þannig að breytingar á stjórnarskránni verði gerðar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það þarf að gera fyrst. Meðan henni er ekki breytt getur komið alveg heil stjórnarskrá, ný stjórnarskrá, óskaplega falleg eins og sú sovéska, hún er víst ein fallegasta stjórnarskrá heimsins. Það er nefnilega munur á því hvernig stjórnarskráin er og hvernig hún er framkvæmd, það er önnur saga. Við þurfum að breyta 79. gr. og segja: Þjóðin greiðir atkvæði um stjórnarskrárbreytingar. Það þyrfti þá mjög mikinn meiri hluta, ég mundi segja að 55% af öllum kjósendum, til að greiða atkvæði með stjórnarskrárbreytingum. Mjög mikil samstaða væri því hjá þjóðinni um þær stjórnarskrárbreytingar sem hún kysi um. Þetta þurfum við að gera fyrst. Ég tel mjög brýnt að 79. gr. sé breytt. Ég mun jafnvel taka á honum stóra mínum og koma með slíka breytingartillögu við stjórnarskrána þannig að þegar einhverjar breytingar verða gerðar á stjórnarskránni, hvort sem það er heil ný stjórnarskrá eins og menn stefna að eða minni háttar breytingar eða breytingarnar gerðar í áföngum sem er hugsanlegt, setja öll mannréttindaákvæðin fremst, byrja á því, og sinna svo hlutverki forsetans og þrískiptingu valdsins, hlutverki dómsvaldsins, löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins, þá greiði þjóðin virkilega atkvæði um stjórnarskrána. Ég tel því mjög brýnt að 79. greininni sé breytt.

Ef þetta yrði gert núna og beðið með samþykktina þangað til ríkisstjórnin fer frá, ég geri ráð fyrir að það verði fljótlega. Ég geri ráð fyrir fljótlega verði boðað til kosninga, ég reikna með að það sé ekkert voðalega langt í það. Þess vegna er mikilvægt að svona breyting liggi fyrir vegna þess að um leið og búið er að samþykkja breytingu á stjórnarskránni þarf að rjúfa þing og boða til kosninga. Það getur farið saman um leið og ríkisstjórnin fellur af því að of margir hafa látið af stuðningi við hana. Þá verður boðað til kosninga og kosið nýtt þing og jafnframt mundi þessi breytingartillaga liggja fyrir og greidd yrðu um hana atkvæði. Nýtt þing gæti samþykkt hana og þá gætu menn gert alvörubreytingar á stjórnarskránni því að þá væri það þjóðin sem mundi greiða atkvæði um það hverju sinni og ekki með mjög löngum fyrirvara, mætti jafnvel gera það með stuttum fyrirvara, eins eða tveggja mánaða. Það þyrfti ekki að rjúfa þing þegar búið væri að samþykkja breytingar á stjórnarskránni.

Þetta er það sem ég legg til að menn einhendi sér núna í, að breyta 79. greininni. Þegar það er búið geta menn farið að sinna öðrum breytingum á stjórnarskránni og allar breytingar á henni eftir það mundi þjóðin kjósa um. Þjóðin yrði sett í að kjósa um stjórnarskrána. Ég tel mjög eðlilegt að þjóðin hafi síðasta orðið um hana.

Svo að ég komi aftur inn á það sem ég talaði fyrst um: Þegar mikið liggur við, frú forseti, þurfa menn að velja úr þau verkefni sem þeir ætla að sinna. Þegar hrunið varð jókst atvinnuleysi og forsendubrestur varð hjá fjölda manns út af atvinnuleysinu, menn geta ekki lengur borgað af lánunum sínum o.s.frv. Þá er svo mikið atriði að koma atvinnulífinu aftur í gang, svo mikið atriði að skapa vinnu. Menn eiga að sinna því og engu öðru. Menn eiga ekki að gera neitt fyrr en búið er að skapa hérna nægilega mikla atvinnu til að fólkið geti farið að borga af lánunum sínum, framfleyta fjölskyldu sinni og þurfi ekki að flytja til Noregs til að sækja vinnu. Það eru óskaplega mörg dæmi þess að annað foreldranna er komið til Noregs, annaðhvort tímabundið eða varanlega, og hitt með börnin á Íslandi, heimilin eru klofin. Það er staða sem ég vil ekki sjá. Ég vil heldur ekki sjá íslenskt fólk, oft og tíðum velmenntað því að það fólk hefur mesta möguleika á vinnu erlendis, flytja úr landi. Við missum skatttekjur og fleira með því ráðslagi. Sérhver vinna sem við bætum við, sérhvert starf sem við sköpum, fækkar fólki á bótaskrá, dregur skattgreiðendur til Íslands frá útlöndum og eykur skatttekjur ríkissjóðs. Reikna má með að það skipti máli sem svarar um 3 milljónum á mann.