139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:52]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður svaraði hálfpartinn því sem ég ætlaði að spyrja hann að í síðustu orðum sínum en þau sneru einmitt að náttúruauðlindunum. Þá er ég að tala um auðlindir í jörðu og sjónum, sjávarútveginn, orkuna og slíkt. Við sátum báðir í svokallaðri sáttanefnd um sjávarútvegskerfið, þar kom saman meira en 20 manna hópur til að fjalla um þá mikilvægu atvinnugrein og mikilvægu auðlind sem Íslendingar eiga. Býsna góð sátt náðist um helstu tillögur, auðvitað voru fyrirvarar á ýmsum hlutum. Það er hins vegar mjög merkilegt að lítið hefur verið gert með þá niðurstöðu eftir að við skiluðum af okkur sem hlýtur að vekja ýmsar spurningar, sérstaklega spurningar sem þarf að varpa til stjórnarflokkanna.

Eitt af því sem við náðum samkomulagi um var að kveðið yrði skýrt á um eignarhald á náttúruauðlindum í stjórnarskrá. Mig langaði af því tilefni að spyrja hv. þingmann, og hann getur þá kannski farið betur yfir það í svari sínu hvað í því felst, hvernig staðið var að vinnu sáttanefndarinnar vegna þess að stjórnarandstöðuþingmanni eða stjórnarandstöðunni var falið að leiða þá vinnu sem sneri að þessu ákvæði.

Ég spyr um þetta í ljósi þess að mjög mikilvægt er að við kveðum niður þær grýlur að við þingmenn getum ekki náð saman um nokkurn skapaðan hlut. Í þessari stóru og miklu nefnd var niðurstaðan sú, og eitt af því fyrsta sem við urðum sátt um, að við yrðum að skýra þetta ákvæði og það þurfti ekkert stjórnlagaþing til þess.