139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:54]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get staðfest það sem hv. þingmaður var að spyrja mig um. Vinnubrögð í endurskoðunarnefndinni voru að langflestu leyti mjög til fyrirmyndar, m.a. að þarna var ákveðið að reyna að takast á við þá spurningu hvort setja ætti ákvæði sem lyti að náttúruauðlindunum, sem á annað borð væru í ríkiseigu, inn í stjórnarskrána.

Það varð niðurstaða forustumanna nefndarinnar sem voru fulltrúar stjórnarflokkanna að setja til verksins fulltrúa stjórnarandstöðunnar og ég varð fyrir valinu. Það var auðvitað táknræn yfirlýsing af þeirra hálfu um að reyna að treysta samningsviljann á báða bóga og um leið yfirlýsing um að þeir treystu því að reynt yrði að fara í þessa vinnu með efnislegum hætti. Þetta var mjög lærdómsríkt fyrir okkur öll sem sátum í nefndinni, sem engin voru raunar löglærð.

Við kölluðum til okkar ýmsa fulltrúa og sérfræðinga á þessu sviði sem hjálpuðu okkur mjög mikið. Mér fannst mjög athyglisvert að þessi umræða hefur á 10–15 ára tímabili gjörbreyst. Fyrir 10–15 árum töluðu menn almennt um að nægilegt væri að hafa ákvæði í stjórnarskránni sem lyti bara að fiskveiðiauðlindum. Nú er mönnum auðvitað ljóst að slíkt ákvæði, hefði það verið sett inn fyrir 10, 15, 20 árum, hefði orðið mjög úrelt miðað við umræðuna sem hefur síðan átt sér stað og þá þróun sem orðið hefur í allri auðlindalöggjöf. Það segir okkur með öðru að við þurfum að vanda okkur og reyna að fylgja því sem er að gerast í þessum efnum.

Niðurstaða okkar var mjög skýr, við vorum öll sammála um þetta. Enginn ágreiningur var um þetta og í rauninni var það svo að ekki munaði mjög miklu, það vantaði kannski fáeina daga, e.t.v. tvær vikur, til að menn hefðu náð saman um slíkt á árinu 2007 á Alþingi.