139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[21:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, ég er alveg sammála því og ég var í rauninni að reyna að draga aðeins fram í einhverjum parti ræðu minnar áðan að ágreiningurinn sem menn hafa ímyndað sér að sé til staðar um ýmis efnisatriði stjórnarskrárinnar er örugglega ekki til staðar. Hv. þingmaður nefndi spurninguna um auðlindirnar. Þar hefur einfaldlega verið unnin mikil vinna og svo var komið vorið 2007 að menn voru býsna nálægt því að ná samkomulagi. Þar blönduðust hins vegar inn í deilur um algjörlega óskylda hluti. Ýmsir tilteknir hv. þingmenn, sérstaklega úr Samfylkingunni, voru mjög brenndir eftir átökin sem urðu um fjölmiðlalöggjöfina árið 2004 og blönduðu inn í þetta deilunum sem þá voru uppi um stjórnskipulega stöðu forseta Íslands. Spurningin um stjórnskipulega stöðu forseta Íslands var einnig undir í endurskoðuninni sem þá fór fram og það kom einfaldlega fram að tilteknir þingmenn sögðu: Við erum ekki til tals um að ljúka neinni endurskoðun varðandi stjórnarskrána ef hrófla á við stöðu forseta Íslands.

Nú hefur margt breyst eins og allir vita. Ég hygg að þeir sem voru þá kannski ákafastir í andstöðu sinni við að hrófla við eða breyta á nokkurn hátt stjórnskipulegri stöðu forseta Íslands samkvæmt stjórnarskránni, hafi skipt um skoðun. Þannig vinnur stundum tímans hjól sitt verk án þess að við gerum okkur endilega grein fyrir því þegar sú vegferð hefst í upphafi. Ég held því að rykið í ýmsum af þessum deilum hafi smám saman verið að setjast. Þess vegna hygg ég að það væri miklu skilvirkari, fljótvirkari og lýðræðislegri aðferð að fela Alþingi að ljúka endurskoðun stjórnarskrárinnar og gera það með því að opna á margvíslega aðkomu almennings að undirbúningi slíkrar stjórnarskrárvinnu.