139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingflokksformanni, Gunnari Braga Sveinssyni, fyrir góða og heiðarlega ræðu og nokkuð aðra ræðu en við höfum heyrt af hálfu annarra framsóknarmanna hér í dag. Ég vil sérstaklega fagna mjög skýrum orðum hans um Hæstarétt, að hann eigi ekki að sniðganga, að við eigum að virða það sem frá honum kemur. Ég vil líka sérstaklega taka undir það sem hann sagði um breiðu sáttina og við eigum að gefa okkur tíma í að fara í breytingar á stjórnarskránni.

Við vitum að að minnsta kosti þrír samfylkingarmenn munu greiða atkvæði gegn þessu, eða hafa lýst sig andsnúna þessu, auk hæstv. innanríkisráðherra, Ögmundar Jónassonar, sem hefur lýst sig andsnúinn þessari leið. Þegar upp er staðið virðist það því vera að framsóknarmenn ætli að tryggja framgang þessa máls og því vil ég spyrja hv. þingmann (Forseti hringir.) hvort hann telji sig bundinn af því sem frá (Forseti hringir.) stjórnlagaráðinu kemur.