139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:25]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég kem hér upp í andsvar til að árétta það við hv. þingmann að það er ekkert sem við getum gert á þessu þingi sem skuldbindur okkur til að fara í einu og öllu að niðurstöðum stjórnlagaráðsins og enginn hefur haldið því fram. Það er mjög líklegt að ég muni í störfum mínum reyna eftir fremsta megni að fara eftir ráðleggingum frá stjórnlagaráði en auðvitað er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn og ákveðnir þingmenn Framsóknarflokksins geta komið með þær breytingartillögur við tillögurnar sem þeim sýnist. Að endingu er það svo næsta þing, þ.e. þingið sem kemur saman að loknum næstu kosningum sem tekur endanlega afstöðu til frumvarpsins sem þá mun liggja fyrir. Og að sjálfsögðu er ekkert sem við getum gert til að binda hendur þess þings og gera því að samþykkja einhverjar tillögur. Ég mótmæli því sem lagt er upp með í ræðu hv. þingmanns í þessum efnum og árétta þennan mikilvæga punkt.