139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:31]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hefði talið mjög æskilegt að efni þessa bréfs hefði verið skoðað mjög vandlega í allsherjarnefnd af þeim sem málið snýr að, yfirkjörstjórn og slíkum. Mjög alvarlegar athugasemdir eru gerðar við framkvæmd kosningarinnar og talningarinnar sérstaklega. Mitt mat er það að í þeim sjö punktum sem hér eru reifaðir séu það mikilvægar athugasemdir að það sé mjög æskilegt að kalla eftir því hvort þetta eigi við á fleiri stöðum, hvort fleiri kannist við þessar athugasemdir. Er hugsanlega eitthvað fleira sem við þurfum að læra af?

Eins og staðan er í dag þurfum við vitanlega fyrst og fremst að læra af þessu. Við getum hins vegar sagt að þetta bréf undirstriki að mörgu var ábótavant í framkvæmd kosningarinnar. (Forseti hringir.) Þar er ég ekki að hvetja til þess að einhverjir verði dregnir til ábyrgðar eða neitt slíkt (Forseti hringir.) heldur fyrst og fremst að menn læri af þessu.