139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:32]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég get verið sammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um að þetta eru atriði sem þarf að læra af og kannski er einmitt ástæða til að skoða það núna vegna þess að næstu kosningar eru skammt undan, þ.e. þjóðaratkvæðagreiðsla 9. apríl, vonandi síðan aðrar kosningar fljótlega en látum vera að spá um það.

Ástæða þess að ég nefni þetta er ekki sú að ég telji að innihald þessa bréfs hafi nein áhrif á afstöðu mína til þess máls sem hér liggur fyrir. Hæstiréttur hefur ógilt kosninguna þótt af öðrum sökum sé og sú niðurstaða liggur fyrir og að mínu mati snýst málið einfaldlega um það núna hvort við ætlum að taka mark á þeirri niðurstöðu Hæstaréttar eða reyna með einhverjum feluleik að komast fram hjá henni.

Þetta bréf hins vegar (Forseti hringir.) á erindi í þessa umræðu vegna þess að fram að þessu hefur mikið verið lagt (Forseti hringir.) upp úr pólitísku og siðferðislegu gildi kosningarinnar 27. nóvember. (Forseti hringir.) Þess vegna vildi ég, hv. þingmaður og hæstv. forseti, (Forseti hringir.) nefna þetta við þessa umræðu.