139. löggjafarþing — 97. fundur,  22. mars 2011.

skipun stjórnlagaráðs.

549. mál
[22:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bréf þetta og þær upplýsingar sem þar eru hafa fyrst og fremst gildi í dag eins og staðan er til að koma í veg fyrir að hlutirnir endurtaki sig. Ef það á að nota sama kerfi og sömu aðferð við næstu kosningar þarf að tryggja að þær athugasemdir eða þau frávik sem nefnd eru í bréfinu, og kannski hafa fleiri svipaða sögu að segja, endurtaki sig ekki.

Ég get ekki fullyrt að það sem kemur fram í bréfinu hafi haft einhver úrslitaáhrif á kosninguna. Þarna er hins vegar beinlínis sagt að nauðsynlegt hafi verið að rýna í skriftina á kjörseðlunum og breyta tölunum til þess að vélarnar eða tækin gætu lesið þær. Það er mjög alvarlegt ef það hefur verið gert af handahófi og að geðþótta.